Viðskipti innlent

Úrvalsvísitalan hækkaði um 6,5 prósent

Úrvalsvísitalan hækkaði um 6,5 prósent á fyrsta fjórðungi 2006 þrátt fyrir töluverðar lækkanir síðustu vikur. Greiningardeild KB banka segir í hálf fimm fréttum að sé hækkunin sett í samhengi við lengra tímabil megi sjá að hækkun fjórðungsins er nokkuð yfir meðaltals ársfjórðungshækkun frá upphafi vísitölunnar, sem nemur um 5,9 prósentum.

„Þrátt fyrir að 9 af síðustu 11 ársfjórðungum hafi skilað mun betri ávöxtun má segja að ávöxtun á fyrsta ársfjórðungi hafi verið góð. Gengi margra félaga hækkaði verulega frá áramótum en 7 félög í Úrvalsvísitölunni hækkuðu um meira en 10 prósent," segir greiningardeildin.

Kögun hækkaði mest á ársfjórðungnum eða um 22,7 prósent, leiðrétt fyrir arðgreiðslum. Næst á eftir er Actavis en gengi bréfa fyrirtækisins hækkaði um 19,7 prósent. Þá hækkaði gengi bréfa í FL Group um 18,0 prósent. Bréf í Flögu lækkuðu mest á fjórðungnum en lækkunin nam 33,2 prósentum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×