Viðskipti innlent

Besta ár í sögu Actavis

Actavis kynnti í dag ársuppgjör sitt fyrir 2005 sem var metár í sögu félagsins.
Actavis kynnti í dag ársuppgjör sitt fyrir 2005 sem var metár í sögu félagsins. Markaðurinn/Valli

Alþjóðlega samheitalyfjafyrirtækið Actavis Group skilaði 6,3 milljarða króna hagnaði á árinu 2005 og 2,8 milljarða hagnaði á fjórða ársfjórðungi. Tekjur samstæðunnar námu 45,2 milljörðum króna á árinu og hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta nam 11,5 milljörðum króna.

Árið er það besta í sögu félagsins. Hefur framlegð félagsins á fjórða ársfjórðungi og fyrir árið í heild sinni aldrei verið hærri.

Í tilkynningu Actavis til Kauphallar er bent á að í ársuppgjörinu megi í fyrsta sinn sjá tekjur frá starfsemi Actavis í Norður-Ameríku, sem samanstandi af fyrirtækjunum Amide Pharmaceuticals og samheitalyfjastarfsemi fyrirtækisins Alpharma Inc. í Norður-Ameríku. Rekstur Amide kemur inn í samstæðuna frá 1. júlí og Alpharma frá 19. desember 2005.

"Ánægjulegt er að sjá góðan árangur félagsins á árinu," segir Róbert Wessman, forstjóri Actavis og segir að um leið og fyrirtækið hafi náð mikilvægri stöðu á Bandaríkjamarkaði hafi það haldið áfram að styrkja stöðu sína á mikilvægum mörkuðum í Evrópu. "Ég er mjög ánægður með reksturinn á árinu, sem endurspeglar þann mikla drifkraft sem er í félaginu og eflir okkur í að sækja enn lengra fram."

Róbert segir að í ár markaðssetji Actavis yfir 150 ný lyf á mörkuðum sínum. "Við teljum félagið vel í stakk búið til frekari vaxtar og eigum von á áframhaldandi góðri afkomu á árinu 2006."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×