Viðskipti innlent

Rekstur Árvakurs fer batnandi

Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, hefur lokið við sölu á nýju hlutafé fyrir hálfan milljarð króna til að styrkja félagið.

Stefán P. Eggertsson, stjórnarformaður Árvakurs, segir að rekstur félagsins það sem af er ári sé betri en í fyrra þegar það tapaði 187 milljónum króna. Samt sem áður þurfi að gera betur á næsta ári. Unnið hafi verið ötullega að því að laga til í rekstri Árvakurs en aðgerðir, sem ráðist er í, skili sér ekki strax.

Allir þáverandi hluthafar félagsins nýttu sér forkaupsrétt að hlutafénu. Breytingar hafa orðið á hluthafahópnum er Ólafsfell, félag Björgólfs Guðmundssonar, stjórnarformanns Landsbankans, eignaðist átta prósenta hlut af Leifi Sveinssyni.

Á hluthafafundi í síðustu viku tók Steingrímur Pétursson, fyrrverandi fjármálastjóri Avion, sæti í stjórn Árvakurs af Halldóri Þ. Halldórssyni og Ragnhildur Geirsdóttir tók við starfi varaformanns stjórnar af Kristni Björnssyni. Stefán verður eftir sem áður stjórnarformaður félagsins.

Árvakur heldur utan um helming hlutafjár í Ár og degi, útgáfufélagi Blaðsins. Fyrir skemmstu var hlutafé Blaðsins aukið og vonast Stefán að ekki þurfi meira til í þeim efnum. Með aukinni dreifingu hafi Blaðinu vaxið fiskur um hrygg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×