Skoðun

Auður Lilja Erlingsdóttir: Hæfasti einstaklingurinn kosinn?

Kosningabaráttan er hafin og tími prófkjöranna er runninn upp. Sú umræða sem alltaf virðist fylgja prófkjörsbaráttu er á sínum stað. Umræðan um hvort það skipti máli að kjósa konur eða karla eða hvort markmiðið sé einfaldlega að kjósa hæfasta einstaklinginn óháð kyni.

Ég undrast alltaf þessa umræðu. Auðvitað eigum við að kjósa hæfasta fólkið eða öllu heldur það fólk sem við teljum hæfast. Satt best að segja þekki ég fáa sem kjósa konur eingöngu vegna þess að þær eru kvenkyns. Hins vegar þekki ég marga sem kjósa konur vegna þess að hlutur kvenna í stjórnmálum er of lítill og vegna þess að konur eiga erfiðara með að komast að í stjórnmálum en karlar.

Það sem ég undrast helst er að fólkið sem hefur hæst um að kjósa skuli hæfasta fólkið vill sjaldnast heyra minnst á kynjakvóta eða fléttulista. Fólkið sem segist eingöngu kjósa eftir hæfni einstaklinga hlýtur þá að telja að verri staða kvenna á listum endurspegli það að karlar séu hæfari en konur. Er ekkert athugavert við slíka niðurstöðu? Út frá henni má álykta að konur í Sjálfstæðisflokknum séu sérstaklega óhæfar í samanburði við karlana þar. Kjósendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík settu til dæmis aðeins tvær konur í sæti sem geta talist örugg þingsæti á móti sjö körlum. Yfir þetta er svo reynt að breiða með fyrirsögninni 5 konur í 12 efstu sætunum! Það að stilla konum upp í neðri sæti lista mun ekki leiðrétta hlut kvenna á Alþingi. Þetta sést glögglega á því að í síðustu kosningum var hlutfall kvenkyns frambjóðenda um 42 prósent en hlutfall kvenna sem rataði inn á Alþingi talsvert lægra eða um 30 prósent.

Svo lengi sem ekki er gengið út frá þeirri forsendu að konur séu ekki jafn hæfar og karlmenn hljótum við að velta fyrir okkar hvort að það sé ekki eitthvað að kerfinu sem notast er við þegar frambjóðendur eru valdir, þ.e. prófkjörunum, og í raun virðist uppstilling ekkert vera betri hvað þetta varðar. Það er aðeins eitt sem dugar. Það er það að stjórnmálaflokkar taki sér tak og setji reglur til að tryggja jafnt kynjahlutfall á framboðslistum sínum. Ekki eingöngu á neðri hluta framboðslistans, einnig í efstu sæti.

Konur eru jafn hæfar körlum og eiga þessa meðferð ekki skilið.

Höfundur er formaður Ungra vinstri grænna (UVG).




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×