Viðskipti innlent

Mistök upp á 214 milljónir króna

Þórólfur Matthíasson prófessor
Þórólfur Matthíasson prófessor

„Samtals virðist sem útgerðin hafi hagnast um 214 milljónir króna á þremur árum vegna sakleysislegra mistaka starfsmanna sjávarútvegsráðuneytisins," segir Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, í nýrri grein í tímaritinu Vísbendingu.

Þórólfur rekur hvernig ekki hafi verið tekið tillit til breytingar á gengi krónu gagnvart bandaríkjadal á tímabilinu sem um ræðir. Að teknu tilliti til þeirra breytinga hefðu greiðslur útgerðarmanna verið 78 milljónum króna lægri fiskveiðiárið 2004 til 2005, 113 milljónum króna hærri á 2005 til 2006 og 179 milljónum króna hærri á yfirstandandi fiskveiðiári en sjávarútvegsráðuneytið hefur ákveðið.

Fiskveiðigjaldið var sett á í stað ýmissa opinberra gjalda sem lögð höfðu verið á útgerðarfyrirtæki með lagasetningu árið 2002. Veltir það upp þeirri spurningu hvort rétt sé að leggja í hendur fag-ráðuneytis að ákvarða opinberar álögur þegar löggjafinn hafi falið það verkefni sérstöku ráðuneyti og stofnunum. „Ætla verður að verkferli í fjármálaráðuneytinu og hjá ríkisskattstjóra séu betur til þess fallin en í sjávarútvegsráðuneytinu að koma í veg fyrir mistök af því tagi sem hér hafa orðið," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×