Viðskipti innlent

Fjárfestar erlendis eiga helming íslenskra ríkisskuldabréfa

Fjárfestar sem búsettir eru erlendis áttu íslensk ríkisskuldabréf fyrir 51 milljarð íslenskra króna að markaðsvirði í lok júlí. Þetta nemur helmingi íslenskra ríkisskuldabréfa á móti eign innlendra aðila. Þetta er talsverð aukning á milli ára en á svipuðum tíma í fyrra áttu fjárfestar með búsetu erlendis 27 prósent ríkisskuldabréfa að verðmæti 24 milljarða íslenskra króna.

Lánasýsla ríkisins og samstarfsaðilar hennar hófu kynningarátak íslenskra ríkisskuldabréfa árið 2001 með vefsíðu með það fyrir augum að kynna ríkis­skuldabréfin á erlendum vettvangi. Eign erlendra fjárfesta þá nam innan við 5 prósentum og þykir ljóst að aukningin á þessu fimm ára tímabili er geysimikil.

Þórður Geir Jónasson, forstjóri Lánasýslu ríkisins, segir aukna eign fjárfesta með búsetu erlendis á íslenskum ríkisskuldabréfum hluta af alþjóðavæðingu íslenska fjármálamarkaðarins. Þá hafi bankar og fjármálastofnanir lagt sitt á vogarskálarnar með því að að birta greiningarefni á ensku um svipað leyti.

Vefsíða Lánasýslunnar gerði alla þessa góðu vinnu sýnilegri með því að safna öllu efninu saman á einn stað, segir Þórður og bendir á að fyrir árið 2001 hafi erlendir fjárfestar þekkt lítið til markaðarins hér á landi og hvorki þekkt vefsíður Seðlabankans né Hagstofunnar, svo fátt eitt sé nefnt.

Ekki liggur fyrir í hvaða löndum fjárfestarnir eru. Lánasýslan vinnur nú að því að greina það og er búist við að hægt verði að flokka fjárfesta eftir búsetu um næstu áramót.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×