Viðskipti innlent

Líkur á frekari uppsögnum

Ein af vélum landsflugs. Framkvæmdastjóri Landsflugs segir verkefna ef til vill verða leitað í útlöndum.
Ein af vélum landsflugs. Framkvæmdastjóri Landsflugs segir verkefna ef til vill verða leitað í útlöndum.

Svo getur farið að Landsflug verði á næstunni að segja upp stærstum hluta eða öllu starfsfólki vegna verkefnaskorts.

Rúnar Árnason, framkvæmdastjóri félagsins, segir framtíðina velta á því hvort útboðssamningur við ríkið um áætlunarflug verði endurnýjaður. Hann segir allt líta út fyrir að aðrir fái samninginn og því sé nauðsynlegt að leita leiða utan landsins til að tryggja rekstur Landsflugs.

Landsflug sagði um síðustu mánaðamót upp sautján manns, öllum starfsmönnum viðhaldsdeildar og fimm flugmönnum. „Nú er verið að finna lausn á málum annarra starfsmanna en við sjáum ekkert í hendi hér á landi,“ segir Rúnar. Landsflug er nú með sautján starfsmenn, mest flugmenn.

Flugfélagið var stofnað fyrir þremur árum og yfirtók rekstur innanlandsdeildar Íslandsflugs ári síðar. Félagið rekur þrjár flugvélar hér og hefur sinnt innanlandsflugi til Hafnar í Hornafirði, Gjögurs og Bíldudals.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×