Viðskipti innlent

Skrá á IG í Evrópu og Bandaríkjunum

Frá verksmiðju Pickenpack, dótturfélags Icelandic Group Finnbogi Baldvinsson hyggst kaupa hlut Samherjamanna í Icelandic Group og verður þriðji stærsti hluthafinn í félaginu.
Frá verksmiðju Pickenpack, dótturfélags Icelandic Group Finnbogi Baldvinsson hyggst kaupa hlut Samherjamanna í Icelandic Group og verður þriðji stærsti hluthafinn í félaginu.

Icelandic Group hefur í hyggju að skipta félaginu upp í þrjár einingar og skrá Icelandic USA og Icelandic Europe sem aðskildar einingar í erlendum kauphöllum. Asíuhlutinn, sem áður var hluti af einingunni í Bandaríkjunum, verður sjálfstæður og ekki skráður á hlutabréfamarkað. Icelandic Group er þegar skráð í Kauphöll Íslands og ekkert bendir til þess að það verði afskráð við breytingarnar.

Íslenskir fjárfestar hafa sýnt Icelandic Group afar lítinn áhuga og hafa viðskipti með bréf í félaginu í Kauphöll Íslands verið sáralítil. Áhugi erlendra fjárfesta mun hins vegar hafa aukist að undanförnu. Það hefur þó staðið í vegi fyrir fjárfestingum að þeir sem líta til Evrópu hafa lítinn áhuga á að fjárfesta í Bandaríkjunum eða Asíu og öfugt. Með breytingunum mun því meðal annars verið að bjóða fjárfestum skýrari kost í þeirri von að áhuginn glæðist.

Finnbogi Baldvinsson, framkvæmdastjóri Icelandic Europe, mun hafa í undirbúningi að kaupa hlut þeirra Samherjamanna, Þorsteins Más Baldvinssonar og Kristjáns Vilhelmssonar, í félaginu Eldar. Félagið á 84 prósenta hlut í FAB GmbH sem aftur á 20,22 prósenta hlut í Icelandic Group. Það kom inn í samstæðu Icelandic Group í lok síðasta árs þegar hún keypti framleiðslufyrirtækið Pickenpack - Hussman & Hahn sem þeir voru meirihlutaeigendur í. Eftir kaup Finnboga á hlut þeirra Samherjamanna verður hann þriðji stærsti hluthafinn í Icelandic Group.

Miklar breytingar hafa átt sér stað í eignarhaldi og yfirstjórn Icelandic Group að undanförnu og samkvæmt heimildum Markaðarins sér enn ekki fyrir endann á þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×