Viðskipti innlent

37 milljarða yfirtökutilboð

MAgnús Þorsteinsson Stjórnarformaður Avion Group telur tilboð í Atlas Cold Storage vera sanngjarnt. Stefnt er að því að ljúka kaupunum og að samhæfa rekstur Atlas og Eimskipa.
MAgnús Þorsteinsson Stjórnarformaður Avion Group telur tilboð í Atlas Cold Storage vera sanngjarnt. Stefnt er að því að ljúka kaupunum og að samhæfa rekstur Atlas og Eimskipa.

Avion Group hyggst gera formlegt yfirtökutilboð í kanadíska félagið Atlas Cold Storage. Tilboðið er gert fyrir hönd nýstofnaðs dótturfélags Avion, Eimskip Atlas Canada, og hljóðar upp á rúma 37 milljarða íslenskra króna eða sem nemur rúmum 443 krónum á hlut.

Atlas Cold Storage rekur fimmtíu og þrjár frysti- og kæligeymslur í Norður-Ameríku. Velta félagsins nam rúmum þrjátíu milljörðum króna árið 2003. Starfsmenn félagsins eru um fjögur þúsund og fimm hundruð. Félagið er skráð í Kauphöllinni í Toronto.

Í tilkynningu frá Avion Group segir að Eimskip Atlas Canada hafi nú þegar gert hluthafasamkomulag við tvo stóra hluthafa í Atlas Cold Storage sem tryggi þeim um 13,9 prósent hlutafjár í félaginu.

Þá segir að gengið hafi verið frá fjármögnun yfirtökunnar að fullu. Fjármögnun verði í höndum kanadísku bankanna Royal Bank of Canada og Canadian Imperial Banking. Að öðru leyti er tilboðið háð hefðbundnum skilyrðum auk samþykkis samkeppnisyfirvalda í Bandaríkjunum og Kanada.

Gangi kaupin eftir mun velta Eimskips nánast tvöfaldast og verður um sjötíu milljarðar króna á ársgrundvelli. "Tilboð okkar er sanngjarnt verð fyrir Atlas Cold Storage. Við stefnum að því að ljúka þessum kaupum og leitast eftir að samhæfa rekstur Atlas við Eimskip. Það er hins vegar núverandi hluthafa Atlas að leggja mat á tilboð okkar," sagði Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Avion Group.

Eimskip er dótturfélag Avion Group og rekur nú áttatíu og átta skrifstofur í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Félagið rekur þrjátíu og sex skip og sex hundruð flutningabíla. Avion Group starfrækir nú hundrað og tíu skrifstofur víðsvegar um heim og eru starfsmenn um sex þúsund og fimm hundruð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×