Viðskipti innlent

Fjörutíu milljarðar í vexti á níutíu dögum

Miklar vaxtatekjur viðskiptabanka
Hreinar vaxtatekjur bankanna voru tólf milljörðum hærri á öðrum ársfjórðungi en þeim fyrsta.
Miklar vaxtatekjur viðskiptabanka Hreinar vaxtatekjur bankanna voru tólf milljörðum hærri á öðrum ársfjórðungi en þeim fyrsta.

Hreinar vaxtatekjur bankanna námu 39,5 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs og hafa aldrei verið meiri. Þessi tekjustofn bankanna hækkaði um rúma tólf milljarða króna frá fyrstu þremur mánuðum ársins þegar hann nam alls 27,3 milljörðum.

Allt síðasta ár fengu stóru bankarnir rúma 78 milljarða í hreinar vaxtatekjur eða tvöfalda þá upphæð sem þeir fengu í tekjur á öðrum ársfjórðungi.

Hreinar vaxtatekjur Glitnis banka voru tæpir 11,5milljarðar króna á öðrum árshluta og jukust um 45 prósent frá fyrsta ársfjórðungi. Landsbankinn fékk 13,7 milljarða króna í vaxtatekjur og jukust þær um 53 prósent og hreinar vaxtatekjur KB banka, sem voru um 14,4 milljarðar á öðrum árshluta, hækkuðu um 37 prósent á milli fjórðunga.

Há verðbólga og lækkun á gengi krónunnar eru meginorsakir þessarar aukningar á öðrum ársfjórðungi. Verðtryggðar eignir bankanna eru töluvert meiri en skuldir þeirra. Þá hefur vægi erlendra eigna bankanna farið sívaxandi í hlutfalli við innlendar eignir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×