Viðskipti innlent

Velta Juventus gæti lækkað um tíu milljarða króna.

Leikmenn Juve fagna Tekjur Juventus munu dragast saman um helming eftir að félagið var sent niður um deild.
Leikmenn Juve fagna Tekjur Juventus munu dragast saman um helming eftir að félagið var sent niður um deild. MYND/GETTY IMAGES

Sérfræðingar áætla að tekjur ítalska stórliðsins Juventus, eða "Gömlu konunnar", hrynji um helming við það að félagið falli niður úr efstu deild í þá næstefstu en forráðamenn Juve og nokkurra annarra liða hafa verið fundnir sekir um að hafa hagrætt úrslitum leikja.

Juve velti tæpum 21 milljarði króna á síðasta keppnistímabili en búist er við að veltan fari niður í rúma tíu milljarða á næstu leiktíð.

Mestu munar um snöggtum minni tekjur af sjónvarpssamningum frá ítölsku deildinni og meistaradeildinni en þær nema helmingi af veltunni. Um fjórðungur tekna kemur frá styrktaraðilanum Tamoil sem ber nafn sitt á treyjum Juve. Forvígismenn Tamoil telja forsendur samningsins vera í uppnámi og hafa óskað eftir endurskoðun hans.

Á móti er víst að óreglulegar tekjur af leikmannasölu munu stóraukast, enda brunaútsala í gangi. Nú þegar hafa Fabio Cannavaro, Emerson, Lilian Thuram og Gianluca Zambrotta gengið til liðs við Barcelona og Real Madrid.

Gengi Juventus, sem er skráð í Kauphöllina í Mílanó, hefur fallið um helming eftir að skandallinn spurðist út. Hæst náði gengi bréfa Juve 2,46 evrum á hlut hinn 9. maí, degi áður en þau hrundu um 55 prósent á tveimur vikum.

Heldur hefur virði þeirra verið að hækka að undanförnu og stendur nú í 1,5 evrum á hlut sem er svipað og það var um miðjan mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×