Viðskipti innlent

Gott uppgjör Bakkavarar

Lýður og Ágúst Guðmundssynir. Hagnaður Bakkavarar var 3,5 milljarðar á síðasta ári sem er í góðu samræmi við væntingar greiningardeilda.
Lýður og Ágúst Guðmundssynir. Hagnaður Bakkavarar var 3,5 milljarðar á síðasta ári sem er í góðu samræmi við væntingar greiningardeilda.

Bakkavör Group skilaði 3,5 milljarða hagnaði árið 2005 og var uppgjörið í góðum takti við væntingar markaðarins.

Á fjórða ársfjórðungi, sem var besti hluti ársins, skilaði félagið um 1.229 milljóna króna hagnaði.

Arðsemi eigin fjár var 30 prósent samanborið við 16,4 prósent árið 2004.

Bakkavör tók stakkaskiptum á síðasta ári með 73,7 milljarða yfirtöku á Geest og því er félagið varla samanburðarhæft á milli ára. Þó sést að hagnaður á hlut jókst úr 0,8 pensum í 2,0 pens en ekkert nýtt hlutafé var gefið út í tengslum við kaupin.

Tekjur félagsins á árinu námu tæpum 78,6 milljörðum króna og var hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) 9,4 milljarðar króna. Yfirtakan á Geest var skuldsett og því skiptir sjóðsstreymið miklu máli til að geta staðið undir afborgunum af lánum. Frjálst fjárflæði var 7,1 milljarður en það er sú upphæð sem er til frjálsrar ráðstöfunar. Handbært fé fyrir skatta og vexti var 11,3 milljarðar í árslok.

Eignir félagsins voru 123,5 milljarðar í árslok en eigið fé tæpir fjórtán milljarðar króna.

Stjórn félagsins gerir í fyrsta skipti tillögu um að greiddur verði arður og leggur hún til 25 prósenta arð af nafnvirði hlutafjár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×