Sport

Venesúela svíkur KSÍ

Knattspyrnusamband Venesúela hefur aflýst vináttulandsleik við íslenska karlalandsliðið sem fram átti að fara á Laugardalsvelli 17. ágúst n.k. Þetta kom fram á heimasíðu venesúelska knattspyrnusambandsins fyrir skömmu en þar segir að settur hafi verið á vináttuleikur gegn Ekvador þennan dag í ágúst. Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði í viðtali við Ríkisútvarpið í dag að tíðindin séu vonbrigði og komi sér mjög á óvart. Í venesúelskum fjölmiðlum hefur knattspyrnusamband landsins verið harðlega gagnrýnt fyrir að hafa samþykkt að leika gegn "litla Íslandi í kuldanum uppi á norðurhjara" T.d. var haft eftir Gilberto Angelucci, landsliðsmarkverði að það væri fáránlegt að leika gegn Íslandi sem er 20 sætum neðar á styrkleikalistanum. Geir sagði að hann hafi verið í sambandi við argentínskan umboðsmann sem unnið hafi að málinu fyrir hönd KSÍ og sá hafi ekki orðað neitt þessu líkt í þeirra samtölum. Venesúelar bera fyrir sig ósætti við KSÍ sem vildi ekki greiða fararkostnað landsliðsins til Íslands en þeim var gert það ljóst um leið og þeir samþykktu fyrst að koma á klakann. Geir segir að erfitt verði að koma á öðrum vináttulandsleik þennan dag enda skammur fyrirvari en þó sé það ekki útilokað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×