Viðskipti innlent

Grípur ekki til aðgerða

Fjármálaeftirlitið ætlar ekki að grípa til aðgerða vegna sölu Íslandsbanka á tæplega 67 prósenta hlut í Sjóvá til eins af stjórnarmönnum bankans. Íslandsbanki seldi tvo þriðju hluta í Sjóvá fyrir rúmlega þrem og hálfum mánuði síðan. Kaupandinn var eignarhaldsfélagið Þáttur sem er í eigu Milestone, sem Karl Wernerson, stjórnarmaður í Íslandsbanka, á ásamt systkinum sínum. Fjárfestingabankinn Straumur sóttist líka eftir því að fá að kaupa hlutinn en fékk ekki. Straumur gagnrýndi vinnubrögðin við söluna og lýsti yfir miklum vonbrigðum með hana á sínum tíma. Í kjölfarið sendi Straumur síðan Fjármálaeftirlitinu formlega kvörtun vegna sölunnar sem laut að ákvörðun meirihluta stjórnar bankans og stjórnenda hans um söluna sjálfa, undanfara hennar og grundvöllinn fyrir ákvörðuninni. Straumur fór þess að á leit við eftirlitið að það úrskurðaði um hvort salan hefði falið í sér óeðlilega viðskiptahætti.  Í bréfi sem Fjármálaeftirlitið sendi Íslandsbanka fyrir helgina kemur fram að það hafi komist að þeirri niðurstöðu að kvörtunin gæfi ekki tilefni til frekari aðgerða. Eftir að gögn málsins hafi verið skoðuð og ígrunduð væri ljóst að fyrirvari fjármálaeftirlitsins á samþykki þess fyrir meðferð Milestone á virkum eignarhlut í Sjóvá væri ekki lengur fyrir hendi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×