Viðskipti innlent

Gengi bréfa M&S rýkur upp

Gengi bréfa í Marks og Spencer hefur rokið upp eftir að fréttist að íslenskir fjárfestar væru að kaupa þriggja prósenta hlut í fyrirtækinu. Hópur íslenskra fjárfesta er við það að tryggja sér ríflega þriggja prósenta hlut í verslanakeðjunni Marks og Spencer fyrir rúma tuttugu milljarða króna. Þetta kemur fram í breska blaðinu Guardian í morgun. Þar segir að kaupin verði væntanlega tilkynnt á allra næstu dögum, en þreifingar hafi staðið yfir í um það bil tíu daga. Ekki er vitað hverjir kaupendurnir eru, en Baugur, Kaupþing og Landsbankinn eru öll nefnd á nafn í grein Guardian. Þar segir að forsvarsmenn Baugs neiti að tjá sig um hugsanlegan áhuga á Marks og Spencer en ekki hafi náðst í talsmenn Kaupþings og Landsbankans. Fregnir af væntanlegum kaupum hafa hleypt lífi í viðskipti með bréf í Marks og Spencer. Undanfarna viku hafa viðskiptin verið líflegri en venjulega og við lok markaða í gær var gengið 346,75 pens á hlut, það hæsta sem sést hefur í meira en sex vikur. En þrátt fyrir aukið verðmæti fyrirtæksins hefur salan hjá Marks og Spencer hefur dregist verulega saman og er því spáð hún hafi dregist saman um fimmtung. Þá hefur hagnaður fyrirtækisins minnkað mikið, en forstjóri fyrirtækisins kynnti 19 prósenta samdrátt í síðasta mánuði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×