Viðskipti innlent

Gríðarlegur áhugi á bréfum Símans

Gríðarlegur áhugi virðist vera meðal almennings að kaupa Landssímann, ef marka má fyrstu viðbrögð, en loforð upp á hundruð milljóna hafa borist. Forsætisráðherra lýsir ánægju með áhuga almennings. Frá því að við hugmyndinni var fyrst hreyft opinberlega í grein Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu í gær hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa. Orri Vigfússon athafnamaður tók strax við sér og hóf undirbúning. Hann sagði í samtali við Stöð 2 í dag að sér hefðu borist fleiri hundruð tölvupóstar í dag þar sem hlutafé væri lofað og verið væri að vinna úr þeim. Hann hefur verið á stöðugum fundum og hefur rætt við sérfræðinga um hvernig koma eigi skipulagi á hlutina. Hann sagði marga sérfræðinga þegar búna að vinna í þessum málum þannig að ekki ætti að taka langan tíma að ganga frá þeim hlutum. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði um hugmyndina á Alþingi í dag að hann vonaði að hún yrði að veruleika og að það myndu áreiðanlega koma mörg tilboð í Símann. Það ferli myndi allt verða opið. En það eru fleiri en Orri Vigfússon sem eru að safna hlutafjárloforðum. Opnuð hefur verið heimasíða með slóðinni www.xbokhald.is/landssiminn/. Eftir því sem Stöð 2 kemst næst var síðan opnuð síðdegis í dag og viðbrögðin mikil. Þar höfðu á sjöunda tímanum á þriðja hundrað manns skráð sig fyrir hlutafé fyrir á þriðja hundrað milljóna króna. Ekki tókst að ná símasambandi við aðstandendur síðunnar þar sem þau fyrirtæki sem skráð eru aðstandendur síðunnar fundust ekki í símaskránni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×