Viðskipti innlent

Eigið fé þrefaldast frá áramótum

Eigið fé KB banka er orðið 149 milljarðar króna eftir hlutafjárútboðið í gær en var fjörutíu og sex milljarðar í ársbyrjun. Það hefur því ríflega þrefaldast frá áramótum.  Allar hundrað og tíu milljónir hluta, sem í boði voru í útboðinu í gær, seldust upp eins og fréttastofan greindi reyndar frá strax í hádeginu í gær. Gengi þeirra var fjögur hundruð og áttatíu krónur á hlut þannig að salan nam tæpum fimmtíu og þremur milljörðum króna. Gengi á bréf í fyrradag var hins vegar tuttugu krónum hærra þannig að gengi á bréfunum í gær var fjórum prósentum lægra. Það þykja lítil frávik frá almennu gengi eins og það var sem gæti skýrst af því að hluthafahópur, sem tilheyrir KB banka, keypti helminginn. Deutsche Bank sá um sölu á hinum helmingnum sem að mestu var seldur til útlanda, eftir því sem fréttastofan kemst næst. Mun færri fengu bréf í gær en vildu því eftirspurnin var upp á rúmlega 86 milljarða, eða 23 milljörðum meiri en öll bréfin fóru á. Sérfræðingar telja að bankinn sé nú í stakk búinn til að ná meirihluta í breska bankanum Singer og Friedlander, sem hann á nú þegar nítján prósent í, en bréf í breska bankanum hækkuðu verulega þegar fréttist af hlutafjárútboði KB banka.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×