Viðskipti innlent

Lítil áhrif á lánin

Vaxatahækkanir Seðlabankans munu ekki hafa mikil áhrif á lánakjör einstaklinga. Einna helst er líklegt að vextir á skammtímalánum, svo sem eins og yfirdráttar- og kortalán, muni hækka í takt við ákvarðanir Seðlabankans. Ný íbúðalán bankanna breytast líklega ekki þótt Seðlabankinn hækki stýrivexti sína. Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, segir að töluvert hafi dregið úr áhrifamætti Seðlabankans. Áhrif vaxtabreytinga eru mun minni nú en fyrir nokkrum árum síðan. Hann segir að vaxtabreytingarnar geti hins vegar haft áhrif með óbeinum hætti. Hærri vextir auka spurn eftir íslenskum skuldabréfum. Það styrkir gengið og getur dregið úr verðbólguþrýstingi. Ástæða þess að áhrif stýrivaxtabreytinga Seðlabankans hafa minnkað er að bankarnir fjármagna útlán sín í sífellt minni mæli með lánum frá Seðlabankanum. Endurhverf viðskipti bankanna við Seðlabankann eru nú aðeins um helmingur af því sem var fyrir fjórum árum. "Þörf bankanna fyrir peninga frá Seðlabankanum er mun minni en hún var, sem þýðir að vextirnir bíta ekki jafn vel og áður. En þetta hefur auðvitað áhrif þótt þau séu ekki jafn mikil. Þetta hefur helst áhrif á þann hluta lánamarkaðarins sem er á dýrustu vöxtunum," segir Tryggvi Þór.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×