Viðskipti innlent

Meiri hagvöxtur

Landsframleiðslan á Íslandi jókst um 4,3 prósent í fyrra en áætlanir höfðu gert ráð fyrir að vöxturinn yrði fjögur prósent. Í Hagtíðindum Hagstofu Íslands kemur fram að aukningin sé fyrst og fremst vegna meiri útflutnings á þjónustu. Landsframleiðslan er samsett úr fjórum meginþáttum: Einkaneyslu, samneyslu, fjárfestingum og utanríkisverslun. Mesti vöxturinn er í fjárfestingu en sá liður hækkaði um 17,6 prósent milli ára og einkaneyslan hækkaði um 6,6 prósent. Samneyslan, útgjöld ríkis og sveitarfélaga, hækkaði hins vegar hægar, um 3,3 prósent. Á árinu 2003 nam samneyslan 26,3 prósent af landsframleiðslu og hefur aldrei verið hærri. Hagvöxtur á Íslandi er nú umtalsvert meiri en í öðrum OECD-löndum. Meðalhagvöxtur þar er talinn hafa verið 2,2 prósent í fyrra. Hagvöxtur er hraðari einungis í einu landi, Tyrklandi, þar er gert ráð fyrir 5,8 prósenta hagvexti í fyrra. Sé litið til áranna frá 1990 er hagvöxtur á Íslandi hinn sami og að meðaltali í OECD-ríkjunum; eða 2,5 prósent á ári. Horfur fyrir næstu tvö ár eru hins vegar betri hér á landi heldur en í OECD-löndunum enda er gert ráð fyrir 3,8 prósenta hagvexti í ár og 4,8 prósentum á næsta ári.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×