Viðskipti innlent

Helmingur þorskkvóta í útlöndum

Þorsteinn Már Baldvinsson segir að fjárfestingar Samherja í tveimur útgerðarfélögum innan Evrópusambandsins séu hluti af stefnu félagsins um vöxt erlendis. Hann segir að útlensk félög sem Samherji á hlut í ráði nú jafnmiklum þorskkvóta eins og Samherji gerir hér á Íslandi. "Stefnan okkar er að láta fyrirtækið vaxa. Ég held að næst munum við hins vegar vera að leita að vinnslu- og markaðsfyrirtækjum," segir Þorsteinn Már. Hann segir að sá vöxtur muni fyrst og fremst eiga sér stað erlendis. Annað félaganna sem Samherji keypti hlut í á þriðjudag er þýska útgerðarfélagið Cuxhaven Reederei. Samherji keypti 65 prósent hlut af Þorsteini Má, Kristjáni Vilhelmssyni, Finnboga Jónssyni og Kaldbaki. Finnbogi er stjórnarformaður Samherja og Þorsteinn Már er forstjóri. Samherji seldi þremenningunum, Kaupþingi og KEA þennan hlut árið 2000 fyrir 864 milljónir króna. Þorsteinn Már segir að þá hafi Samherji viljað minnka áhættu í rekstrinum. Síðan þá hafi orðið viðsnúningur í rekstrinum. Þorsteinn Már telur því ekkert athugavert við að Samherji kaupi hlutinn aftur. "Ég get horft uppréttur og beinn framan í fólk sem er að velta því fyrir sér hvort hagnaðurinn okkar sé mikill í þessu eða ekki. Hann er tiltölulega lítill," segir hann.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×