Viðskipti innlent

Keypt fyrir 2,5 milljarða í Evrópu

Samherji hefur keypt hluti í tveimur evrópskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Kaupverðið er samtals nálægt tveimur og hálfum milljarði króna. Annars vegar jók Samherji hlut sinn í þýska útgerðarfélaginu CR Cuxhaven Reederei úr 30 í 65 prósent. Kaupverð hlutarins var 17,3 milljónir evra (um 1,6 milljarðar króna). Hins vegar keypti dótturfélag Samherja helmingshlut í Boyd Line Ltd. í Bretlandi. Kaupverð þess hlutar er 6,5 milljónir Sterlingspunda (um átta hundruð milljónir króna). Í frétt frá Samherja kemur fram að eftir kaupin ráði félög, sem Samherji á eignaraðild að, yfir um tuttugu þúsund þorskígildistonnum í sameiginlegum kvóta Evrópusambandsins. Til samanburðar er kvóti Samherja á Íslandsmiðum um 25 þúsund þorskígildistonn. Í gær var einnig tilkynnt um að Samherji hefði aukið hlut sinn í Síldarvinnslunni hf. Samherji keypti 3,6 prósent fyrir tæplega 260 milljónir króna og á félagið og dótturfélag þess nú ríflega 37 prósent í Síldarvinnslunni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×