Viðskipti innlent

Markaðsvirðið yfir 1000 milljörðum

Markaðsvirði félaga sem eru skráð í Kauphöll Íslands jókst um rúma 120 milljarða króna í síðasta mánuði og er nú komið yfir eitt þúsund milljarða króna, þrátt fyrir að félögunum fari fækkandi. Eitt þúsund milljarðar er líklega um það bil óskiljanleg hverjum meðal jóni því einn milljarður er eitt þúsund milljónir og þetta er eitt þúsund svoleiðis pakkar. Bankarnir eiga lang drýgstan þátt í hækkuninni. Landsbankinn hækkaði um nítján prósent og Íslandsbanki og KB banki um tæp níu prósent hvor. Samanlagt markaðsvirði stóru bankanna jókst því um rétt tæpa 50 milljarða króna og eru þá ekki taldir með 40 milljarðarnir í hlutafjárútboði KB banka. Actavis hækkaði um níu og hálft prósent sem þýðir rúmlega tólf milljarðar króna og Burðarás um níu prósent, eða tæpa fimm milljarða. Um áramót var markaðsvirði skráðra félaga 658 milljarðar og hefur því hækkað um rúm 58 prósent það sem af er árinu. Skráðum félögum fer hins vegar fækkandi og markaðsvirði þeirra félaga sem afskráð voru á árinu var röskir 15 milljarðar um áramót. Fyrir nokkrum misserum voru um það bil 75 félög skráð í Kauphöllinni en voru 47 um áramót. Síðan hefur þeim fækkað um sjö og fyrirséð er að þeim mun fækka niður í 37 fyrir árslok.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×