Viðskipti innlent

Straumur hagnast um 1,12 milljarða

Hagnaður Straums - fjárfestingabanka á öðrum ársfjórðungi 2004 nam 1.122 milljónum króna. Hreinar rekstrartekjur bankans námu 1.457 milljónum kr. en þar af var gengishagnaður 1.230 milljónir. Þetta kemur fram í uppgjöri Straums fyrir annan ársfjórðung ársins sem birt var í dag og er þetta fyrsta uppgjörið fyrir fjórðunginn. Straumur fékk leyfi sem fjárfestingarbanki í upphafi ársins og miðar ágætlega að breyta sér úr sjóði í banka að sögn greiningardeildar KB banka. Hreinar vaxtatekjur á fjórðungnum námu 122 milljónum og jukust úr 26 milljónum á fyrsta fjórðungi. Útlán voru 4.784 milljónir í lok tímabilsins en voru 1.614 milljónir króna í upphafi hans. Útlán eru enn einungis 26,3% af eigin fé og ljóst að bankinn á töluverð sóknarfæri í útlánastarfsemi og afla sér þannig stöðugri tekna. Þóknanatekjur Straums á tímabilinu námu 107 milljónum króna, þar af kom 71 milljón frá markaðsviðskiptum og 36 milljónir af fyrirtækjaverkefnum. Þrátt fyrir að þessar tekjur séu enn lágt hlutfall af eigin fé bankans er hin 98 milljón króna hækkun tekjanna á fyrsta ársfjórðungi merki um að stjórnendur Straums sé að takast að breyta sjóðnum í banka að sögn KB banka.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×