Viðskipti innlent

Breytti símtali í viðræður

Makedónska fyrirtækið Alkaloid tilkynnti kauphöllinni í Makedóníu um sameiningarviðræður þess við íslenska fyrirtækið Actavis. Hjá Actavis urðu menn undrandi yfir þessari tilkynningu þegar hún birtist í byrjun júní. "Við höfðum talað við þá einu sinni eins og marga aðra og við vorum mjög undrandi á þessari tilkynningu," segir Halldór Kristmannsson hjá Actavis. Halldór segir að í ljósi þessara vinnubragða hafi verið ákveðið að ræða ekki frekar við Alkaloid. Yfirlýst stefna Actavis er að stækka með kaupum á fyrirtækjum og ræðir að jafnaði við mörg fyrirtæki. Ekki var um að ræða í þessu tilviki að neinar formlegar viðræður væru í gangi. Líklegasta skýringin á því að Alkaloid kaus að birta slíka tilkynningu er að fyrirtækið hafi viljað vekja á sér athygli á markaðnum og hækka verð eigin bréfa. "Þeir gerðu þetta ekki í neinu samráði við okkur og við erum ekki í viðræðum við þetta félag," segir Halldór.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×