Tvær konur til viðbótar hafa stigið fram og sakað Donald Trump, forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins, um kynferðisofbeldi.
Greint er frá þessu á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC en þar segir að Kristin Anderson hafi sagt við Washington Post að Trump hefði farið með hendi upp undir pils hennar og káfað á henni á skemmtistað í New York í Bandaríkjunum á tíunda áratug síðustu aldar.
Þá er einnig sagt frá Summer Zervos, sem var þátttakandi í raunveruleikaþættinum Apprentice, sem segir Trump hafa þröngvað sér á hana á hóteli í Los Angeles.
Trump segir þessar ásakanir vera lygar.
Anderson segir Trump hafa káfað á henni utan nærklæða hennar á næturklúbbi í Manhattan þar sem hún starfaði sem þjónustustúlka til að sjá fyrir sér, en á þeim tíma vonaðist hún eftir því að verða fyrirsæta.
Zervos var þátttakandi í fimmtu seríu af The Apprentice en hún greindi frá þessu atviki á tilfinningaþrungnum blaðamannafundi í Los Angeles fyrr í dag. Hún sagðist hafa hitt Trump á hóteli í Beverly Hills árið 2007. Hún sagði Trump hafa heilsað sér með því að kyssa sig á munninn.
Hún segir Trump hafa beðið hana um að sitja við hlið sér í sófa þar sem hann á að hafa gripið í öxl hennar og reynt að kyssa hana og sett hönd sína á brjóst hennar.
Tvær konur til viðbótar saka Trump um kynferðisofbeldi

Tengdar fréttir

Framleiðandi The Apprentice fordæmir framboð Trump
Mark Burnett, sjónvarpsþáttaframleiðandinn sem kom Donald Trump á kortið með þáttunum The Apprentice, hefur gefið út yfirlýsingu þar sem hann fordæmir forsetaframboð Trump.

Segir ummæli Trump um konur vera óásættanleg
Michelle Obama, forsetafrú Bandaríkjanna, flutti í gær mjög persónulega ræðu um ummæli Donald Trump um konur og viðhorf hans.

Konur saka Trump um kynferðisbrot
Hneykslismálin sem dunið hafa á forsetaframbjóðandanum Donald Trump virðast engan enda ætla að taka.

Trump segir allar konurnar ljúga
Donald Trump segir ásakanir gegn sér vera „samsæri gegn bandarísku þjóðinni“.

Birtir tugi frásagna kvenna af kynferðisofbeldi: "Þetta er eitthvert allra stærsta útistandandi réttlætismál okkar samtíma“
Hildur Lilliendahl segist ekki treysta sér til að hvetja ungar konur til að kæra kynferðisofbeldi eins og staðan er í dag.