Frelsi og fögnuður eru orðin sem hljóma í kirkjum landsins á næstu dögum í tali og tónum þegar haldið er upp á fæðingu höfundar fagnaðarerindisins. Orð sem við þyljum eða syngjum árum saman, fallega texta sem minna okkur á jól bernskunnar. En hvert er erindi fagnaðarerindisins? Frá hverju erum við frelsuð? Þegar kerfinu sem við höfum komið okkur upp í kringum þessa kenningu sleppir, hvert er þá erindið? Erum við frjáls af okkur sjálfum? Frjáls af áliti annarra, öfund, heift, tilætlunarsemi og vanþakklæti? Varla. En jólin minna okkur engu að síður á að þetta tilboð stendur enn.