Innlent

Stór­leikurinn riðlar dag­skrá margra

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikurinn í kvöld hefur meðal annars áhrif á viðburði í Hörpu og Borgarleikhúsinu.
Leikurinn í kvöld hefur meðal annars áhrif á viðburði í Hörpu og Borgarleikhúsinu. Vísir/Vilhelm

Íslenskt samfélag heldur nánast niðri í sér andanum vegna undanúrslitaleiks strákanna okkar gegn Dönum. Tímasetning leiksins hefur áhrif á stóra viðburði sem eru á dagskrá í kvöld og hafa skipuleggjendur þurft að aðlaga dagskrá vegna áhuga landans.

Ísland leikur í undanúrslitum Evrópumótsins í handknattleik í kvöld þegar strákarnir okkar mæta Dönum. Óhætt er að segja að áhuginn fyrir leiknum sé mikill og búast má við að stór hluti landsmanna verði límdur við sjónvarpsskjáinn klukkan hálf átta þegar leikurinn hefst í Herning í Danmörku. 

700 manns horfa saman í Kópavogi

Tímasetning leiksins hefur áhrif á ýmsa viðburði sem fyrirhugaðir eru í kvöld og hafa skipuleggjendur þurft að aðlaga dagskrá til að mæta þörfum þeirra sem alls ekki vilja missa af leiknum.

„Frá því að það var ljóst að þetta væri svona þá er búið að rigna tölvupóstum og símtölum yfir okkur hérna á skrifstofunni og þá sem eru í forsvari fyrir félagið þannig að áhuginn er gríðarlegur,“ sagði Sveinbjörn Sveinbjörnsson framkvæmdastjóri HK en félagið heldur þorrablót í kvöld og er búist við yfir 700 gestum.

„Við erum að opna húsið klukkan sjö og verðum með fyrri hálfleikinn á risaskjá. Svo byrjar dagskráin í hálfleik og svo látum við bara leikinn rúlla eftir það. Það er mikil stemmning í fólki að koma saman í góðra vina hópi með leikinn á.“

Borgarleikhúsið mætir gestum á miðri leið

Myrkir músíkdagar fram í Hörpu og þar voru tónleikar færðir til svo fólk gæti horft á leikinn á risaskjá í Silfurbergi. 

Þá ætlar Borgarleikhúsið að mæta sínum gestum á miðri leið og skapa EM-stemmningu en að sögn Egils Heiðars Pálssonar leikhússtjóra eru skipulagðar sýningar á öllum sviðum sem ekki var hægt að aflýsa.

„Fólk er að koma langt að og það var uppselt í alla sali. Við erum með miðasölustefnu sem er þannig að þremur dögum fyrir sýningu er ekki hægt að aflýsa miðum. Við þurfum að halda fast í það til að halda rekstri eðlilegum eins og í öllum fyrirækjum,“ sagði Egill Heiðar.

„Það er bara sýnt beint frá leiknum og svo hefjum við sýningar korteri seinna, semsagt korter yfir átta svo allir nái fyrri hálfleik og að mæta í leikhúsið,“ bætir Egill við og segir ekkert meira viðeigandi en að ná að tækla bæði íþróttir og listir á einu bretti.

Að hans sögn tóku langflestir breyttu skipulagi vel og hann hefur ekki áhyggjur af því að hefja sýningar í hálfleik.

„Við ætlum að horfa á þetta svona. Ef staðan er ekki góð þá hefur þú gott af því að fara í leikhús. ef staðan er góð þá verður sýningin enn betri fyrir þig. Þannig að þetta er svona „win win“. Við ætlum að halda stemmningunni góðri og við stöndum öll í þessu saman, segir Egill að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×