Innlent

Vísar á­sökunum um ó­eðli­leg af­skipti af kosningu á bug

Lovísa Arnardóttir skrifar
Guðjón Hreinn hefur verið formaður frá árinu 2019.
Guðjón Hreinn hefur verið formaður frá árinu 2019. FF

Guðjón Hreinn Hauksson, sitjandi formaður Félags framhaldsskólakennara (FF) og frambjóðandi til formanns, vísar ásökunum mótframbjóðanda síns um óeðlileg afskipti varaformanns af kosningu á bug. Tveir eru í framboði til formanns, Guðjón og Simon Cramer Larsen, stjórnarmaður í FF. Kosning hófst þann 26. janúar og lýkur í dag. Guðjón Hreinn hefur gegnt formennsku frá árinu 2019.

„Ég finn mig knúinn til þess að lýsa megnri óánægju með síðasta útspil mótherja míns í framboði til formanns Félags framhaldsskólakennara. Nú, nokkrum klukkustundum fyrir lok kosninga, sakar hann samherja sinn í stjórn félagsins, sem jafnframt hefur verið varaformaður þetta kjörtímabil, um óeðlileg afskipti af kosningum eftir að hún skrifaði póst á kollega sína í Tækniskólanum og hvatti þá til þess að kjósa mig áfram sem formann,“ segir Guðjón í yfirlýsingu sem hann birti á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. 

Simon Cramer Larsen sakar varaformann um óeðlileg afskipti og segir ekki gætt jafnræðis hvað varðar aðgengi að félagaskrá. Guðjón hefur vísað þessum ásökunum á bug. FF

Í viðtali við Morgunblaðið í gær sagði Simon að það væri alvarlegt að starfsmaður félagsins hafi hvatt félagsmenn til að kjósa sitjandi formann. Helga hafi verið ráðin í hlutastarf árið 2022 að tillögu formanns. Það breyti stöðu varaformannsins sem bæði sitji undir formanni félagsins og lúti reglum um trúnað og hlutleysi gagnvart félagsmönnum öllum.

Einnig kom fram í viðtalinu að í pósti varaformannsins, Helgu Jóhönnu Baldursdóttur, hafi hún hvatt fólk til að kjósa Guðjón áfram sem formann og sagt að það væri „galið“ að skipta um formann núna í miðjum viðræðum um virðismat kennara en viðræðurnar eru hluti af kjarasamningi kennara.

Færsla Guðjóns var birt í gær. Kosningu lýkur í dag. Facebook

Alvarlegt að vekja spurningar um jafnræði

Guðjón segir í færslu sinni einnig „háalvarlegt“ að Simon segi í viðtali við Morgunblaðið í gær að það veki spurningar um jafnræði í baráttunni að Guðjón hafi, sem sitjandi formaður, aðgang að félagaskrá en ekki hann.

„Þar með er sterklega gefið í skyn að ég hafi nýtt mér félagaskrána í annarlegum tilgangi. Það hef ég ekki gert. Á meðan kosningabaráttunni stóð sendi ég einn tölvupóst á formenn og trúnaðarmenn félagsins - eftir lista sem við báðir frambjóðendurnir höfðum aðgang að, enda birtur á vefsíðu Félags framhaldsskólakennara,“ segir Guðjón í færslu sinni.

Hann segir póstinn hafa verið sendan til að svara spurningum sem ekki hafi náðst að svara á framboðsfundi sem fór fram fyrir viku síðan, 22. janúar. Þá hafi hann beðið formenn að áframsenda póst á félagsfólk og segir Guðjón það eina póstinn sem hann hafi sent frá sér sem ætlaður hafi verið öllu félagsfólki. Hann hafi því farið eftir þekktum boðleiðum.

Lýsir yfir djúpri vanþóknun

„Ég vísa þessum alvarlegu ásökunum á bug og lýsi djúpri vanþóknun á svona málflutningi og baráttuaðferðum. Ég treysti því fullkomlega að félagsfólk sjái í gegnum þetta og treysti því til að nýta kosningarétt sinn félaginu okkar til heilla og gef formanni skýrt umboð til góðra verka næstu 4 ár. Við erum á góðri leið sem ég vil leiða áfram ásamt því fólki sem hlýtur traust til stjórnarsetu í þessum kosningum,“ segir Guðjón að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×