Umræðan

Mjúk lending í Banda­ríkjunum og aukinn hag­vöxtur í far­vatninu

Guðlaugur Steinarr Gíslason skrifar

Eftir viðburðarríkt ár á alþjóðlegum mörkuðum er nýtt ár gengið í garð þar sem ekki er skortur á fréttaefni enda er heimsmyndin að taka miklum breytingum þessa dagana. Hins vegar er mikilvægt að horfa á staðreyndir þegar lagt er mat á hina efnahagslegu stöðu sem blasir við alþjóðlegum fjárfestum. 

Á árinu 2025 var töluvert fjallað um mögulega offjárfestingu í gervigreind og voru áhyggjur af samþjöppun í hlutabréfavísitölum svo dæmi séu tekin. Minna fór fyrir vönduðum greiningum á tækifærum gervigreindar og féll slík umræða oft í skuggann á hamfarafyrirsögnum. Þá má benda á að bandarískir hlutabréfamarkaðir hafa tekið þrjár 30% lækkanir á þessum áratug, sem hafa ítrekað gengið til baka. Það gerist þrátt fyrir að hafa m.a. verið drifnar af stærsta heimsfaraldri í 100 ár, hröðu vaxtahækkunartímabili í kjölfar Covid-faraldursins og síðan mesta tollastríði sem heimurinn hefur séð á okkar tímum. Ávallt hafa markaðir risið upp á ný og fjármagn streymt inn í hlutabréf aftur. Hvað liggur þar að baki og hvernig blasir nýtt ár við fjárfestum?

Lækkandi vextir ofan í aukinn hagvöxt

Ef við stígum til jarðar og horfum á gögnin, þá hafa hagvaxtarvæntingar vestanhafs færst hratt upp á við síðustu mánuði. Bandaríska hagkerfið hefur sýnt ótrúlega seiglu og nú eru allar líkur á að hagvöxtur verði meiri árið 2026 en í fyrra. Samkvæmt hagvaxtaspá Atlanta FED stefnir í að hagvöxtur á fjórða ársfjórðungi 2025 verði óvenju sterkur, eða 5,4% á ársgrundvelli, og hagvöxtur á árinu 2025 yrði þá um 2%. Þótt verðbólga sé enn lítillega yfir markmiði, þá helst hún nokkuð stöðug á meðan atvinnuleysi hefur hækkað. Bakslag á vinnumarkaði virðist ekki hafa orsakast af minni umsvifum í efnahagslífinu heldur af öðrum ástæðum sem liggja líklega í samblöndu af áhrifum gervigreindarinnar á störf og áherslubreytingum hjá fyrirtækjum. Jerome Powell seðlabankastjóri hefur sagt að bankinn horfi frekar til stöðu vinnumarkaðarins en á verðbólgu við mat á vöxtum og því er útlit fyrir tvær vaxtalækkanir á árinu eins og sakir standa.

Þjóðríki eru farin að átta sig á mikilvægi þessarar nýju tækni og munu styðja við uppbygginguna með því að liðka fyrir fjárfestingum og orkuöflun sem er lykilforsenda framgangs á þessu sviði.

Með lækkandi vaxtastigi og óbreyttum verðbólguhorfum þá færast raunvextir niður á við. Slíkt hefur alla jafnan áhrif á fjárfesta með þeim hætti að þeir þurfa að færa sig lengra út á áhætturófið til þess að sækja ávöxtun. Þar geta þeir horft til hlutabréfamarkaðarins eða jafnvel til eigna sem greiða ekki vexti eins og gull og hrávörur. Aukinn órói í alþjóðamálum og ósjálfbær skuldasöfnun flestra stórvelda heimsins eykur enn á eftirspurn eftir slíkum eignum eins og verðlagning þeirra hefur sýnt síðustu misseri. Telur Viska mikil tækifæri framundan á þessu sviði þar sem aukin harka í samskiptum þjóðríkja veldur því einnig að lönd þurfa að endurhugsa aðgang sinn að þessum mikilvægum aðföngum.

Gervigreindin breytir heiminum

Á sama tíma er gervigreindin byrjuð að hafa áhrif á vinnumarkaði og framleiðni. Flest þau gögn sem við í Visku sjóðum höfum lagst yfir virðast benda sterklega til þess að heimurinn sé stórlega að vanmeta áhrif gervigreindar. Hærra hlutfall fyrirtækja er að sjá ávinning af innleiðingu hennar, framþróun í mállíkönum og getu þeirra til að leysa vandamál er hröð og byltingakennd og á þessu ári munu rísa ný gagnaver sem auka afköst og getu þessarar tækni ennþá frekar. Þjóðríki eru farin að átta sig á mikilvægi þessarar nýju tækni og munu styðja við uppbygginguna með því að liðka fyrir fjárfestingum og orkuöflun sem er lykilforsenda framgangs á þessu sviði. Þar sér Viska mikil tækifæri á næstu árum og telur að um sé að ræða byltingu sem mun hafa mikinn þjóðhagslegan ávinning í för með sér fyrir heiminn allan.

Verðlagning hlutabréfa og afkomuhorfur

Það eru ekki aðeins ytri aðstæður sem styðja við markaðinn, heldur einnig undirliggjandi rekstur fyrirtækja í Bandaríkjunum. Greiningaraðilar spá nú 14% hagnaðaraukningu hjá félögum í S&P 500 vísitölunni fyrir árið 2026. Til samanburðar var vöxturinn 11,9% árið 2025 og 9,9% árið 2024. Þessi afkomubati er til marks um aukna framleiðni og betri rekstrarskilyrði fyrirtækja.

Þrátt fyrir hækkanir á hlutabréfamörkuðum árið 2025 er áhugavert að sjá að tólf mánaða framvirk V/H (Verð/Hagnaður) gildi hafa haldist nánast óbreytt. Þetta þýðir að verðhækkanir hafa verið í takt við bættar afkomuhorfur. Tækifærin liggja þó ekki síst utan við stærstu tæknifyrirtækin en mörg meðalstór og minni félög (e. mid / small caps) eru í dag verðlögð undir sögulegum V/H kennitölum. Sama má segja um fjölmörg námufyrirtæki og hrávöruframleiðendur sem mörg hver eru hagstætt verðlögð með tilliti til núverandi verð ýmissa málma og hrávara. Þá hafa markaðir utan Bandaríkjanna einnig byrjað að taka við sér og má þar helst nefna ýmsa markaði í Suður-Ameríku og Suður-Kóreu og hefur Viska trú á að fjölmargir nýmarkaðir (e. emerging markets) horfi fram á bjarta tíma í nýrri heimsmynd.

Pólitískir vindar og áhrif kosninga

Árið 2026 er kosningaár í Bandaríkjunum, en gengið verður til svokallaðra þingkosninga í nóvember. Repúblikanar standa frammi fyrir mótvindi og veðbankar telja nú ólíklegt að flokkurinn haldi meirihluta sínum í fulltrúadeildinni. Þessi pólitíska staða er líkleg til að verða hvati fyrir efnahagsaðgerðir af hálfu sitjandi forseta þar sem Donald Trump og ríkisstjórn hans munu líklega grípa til aðgerða til að reyna vinna kjósendur á sitt band. Þetta mun líklega fela í sér stuðning við heimili og fyrirtæki sem mun hafa bein áhrif á hagkerfið og markaði. Áhrif af aðgerðarpakka Donald Trump, „Big Beautiful Bill“, sem felur meðal annars í sér skattalækkanir, munu koma hvað sterkast fram á fyrri hluta ársins 2026. Goldman Sachs spáir því að þessar aðgerðir einar og sér gætu aukið landsframleiðslu um 0,5%.

Þessi pólitíska staða er líkleg til að verða hvati fyrir efnahagsaðgerðir af hálfu sitjandi forseta.

Til viðbótar má búast við tilkynningu um nýjan seðlabankastjóra skipuðum af Donald Trump á næstu misserum og tekur við störfum í vor. Sá aðili mun líklega horfa til lægri vaxta en Jerome Powell hefur gert, sem þrýstir raunvöxtum þá mögulega enn frekar niður. Það má því búast við viðburðarríku ári og er mikilvægt að fjárfestar átti sig á sterkri efnahagslegri stöðu hagkerfa eins og í tilfelli Bandaríkjanna, þrátt fyrir sviptingar á alþjóðasviðinu.

Höfundur er fjárfestingastjóri og meðstofnandi hjá Visku sjóðum.


Tengdar fréttir

Viska stofnar nýjan sjóð sem mun einkum fjár­festa í hluta­bréfum

Fjárfestingafélagið Viska Digital Assets hefur tekið upp nýtt nafn og heitir nú Viska sjóðir. Samhliða nafnabreytingunni kynnir félagið nýjan sjóð, Viska macro, sem byggir á heildarsýn félagsins á alþjóðlegu efnahagsumhverfi. Nýr sjóður leggur áherslu á fjárfestingar í tækni og hörðum eignum, þar sem uppgangur gervigreindarinnar og áhrif hennar á hagkerfi eru leiðandi stef í stefnu sjóðsins.




Umræðan

Sjá meira


×