Innlent

Biður Dóru Björt af­sökunar eftir deilur um vetrarþjónustu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Þröstur kenndi Dóru um stöðu mála hvað varðar vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar.
Þröstur kenndi Dóru um stöðu mála hvað varðar vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar. Samsett

Þröstur Ingólfur Víðisson, fyrrverandi verkstjóri hjá Reykjavíkurborg, hefur beðið Dóru Björt Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Reykjavíkurborgar, afsökunar á að hafa kennt henni um slæma stöðu mála í vetrarþjónustu borgarinnar. Dóra Björt segist hafa sætt hótunum fyrir verkefni sem hún kom sjálf aldrei að.

Svellhált var á höfuðborgarsvæðinu og víðar um landið á þriðjudag. Aldrei hafa jafn margir leitað á bráðamóttöku Landspítalans á einum degi vegna hálkuslysa. Þröstur skrifaði pistil um hálkuna í íbúahópi Miðborgarinnar á Facebook þar sem hann gagnrýnir aðferðir borgarinnar.

„Ég vann í átta ár sem eftirlitsmaður/verkstjóri við vetrarþjónustu hjá Reykjavíkurborg. Fyrirkomulagið var þá að mínu mati eins gott og öruggt og það getur orðið. Borgarlandið var vaktað eins og ungabarn,“ segir Þröstur.

„Ég fullyrði að þetta fyrirkomulag og áratuga samanlögð reynsla þessara sex manna minnkaði líkurnar verulega á mistökum og kom iðulega í veg fyrir heilsu- og fjárhagstjón í þeim mæli sem varð tuttugasta janúar 2026.“

Þröstur gagnrýnir þá harðlega að fyrirkomulaginu hafi verið breytt af Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og heldur því fram að farið hefði verið í breytingarnar undir forystu Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, áður Pírata.

„Dóra Björt barði sér á brjóst á sínum tíma og gortaði af öllu saman. Þetta kölluðu þau „heildarendurskoðun á handbók vetrarþjónustu“. Fyrirkomulagið er algjörlega óboðlegt og ávísun á stórslys eins og dæmin sanna,“ segir Þröstur.

Hefur sætt hótunum vegna gímaldsins

Eftir að fjallað var um orð Þrastar á bæði mbl og DV birti Dóra Björt sjálf pistil þar sem hún segist ekki hafa getað leitt vinnu að nýrri vetrarþjónustuhandbók Reykjavíkur þar sem að hún var í fæðingarorlofi á meðan sú vinna fór fram.

„Burtséð frá inntaki gagnrýninnar þá er lágmarkskrafa að farið sé rétt með einfaldar staðreyndir, hvað þá þegar þær draga dilk á eftir sér fyrir fólk. Ég tel mikilvægt að gagnrýni í opinberri umræðu byggi á réttum forsendum. Ég tek ábyrgð á þeim verkefnum og ákvörðunum sem ég hef sjálf komið að og er tilbúin að ræða þau af hreinskilni,“ segir Dóra Björt.

Hún segir það hins vegar óásættanlegt að vera gerð ábyrg fyrir verkum og ákvörðunum sem hún sjálf kom ekki að, þar á meðal vetrarþjónustuhandbókinni. Þá tekur hún líka fram að henni sé oft kennt um „Græna gímaldið“ við Álfabakka en sannleikurinn sé að hún sat ekki í skipulagsráði þegar það skipulag var samþykkt.

„Samt hef ég í á annað ár þurft að þola stanslaust áreiti - og jafnvel hótanir - vegna máls sem ég bara enga ábyrgð á.“

Alexandra, ekki Dóra

Nú í morgun birti Þröstur aðra færslu þar sem hann biður Dóru Björt afsökunar.

„Ég fékk rangar upplýsingar um þetta,“ skrifar hann.

„Hið rétta er að það var Alexandra Briem sem fór fyrir hópnum. Mér þykir þetta leitt og bið ég Dóru Björt afsökunar á þessum ummælum mínum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×