Skoðun

Sam­fylking til fram­tíðar

Bjarnveig Birta Bjarnadóttir og Stein Olav Romslo skrifa

Í dag er sögulegt tækifæri til að koma ungu fólki í borgarstjórnarflokk Samfylkingarinnar í vor. Samfylkingin hefur aðeins einu sinni kosið sér nýjan borgarfulltrúa undir 35 ára. Ungt fólk hefur samt verið duglegt að bjóða sig fram í prófkjörum en ekki hlotið framgang. Af því tilefni hélt Ungt jafnaðarfólk, ungliðahreyfing flokksins, forprófkjör í desember. Tilgangurinn var að velja tvo fulltrúa ungs fólks sem flokksfólk gæti flykkt sér saman um.

Í forprófkjörinu voru 6 frambjóðendur og mörg hundruð ungmenni í Samfylkingunni greiddu atkvæði. Við undirrituð, Bjarnveig Birta og Stein Olav, vorum kjörin fulltrúar ungs fólks í prófkjöri Samfylkingarinnar. Forprófkjör Ungs jafnaðarfólks var tilraun til að veita ungu fólki þann framgang í flokknum sem það á skilið og efla rödd ungs fólks innan borgarstjórnar. En ekkert er í hendi. Nú þarf Samfylkingin að sýna að ungt fólk fái tækifæri innan flokksins.

Við ekki bara ung, við erum líka hæf. Bjarnveig Birta, er 33 ára rekstrarstjóri og þriggja barna móðir úr Grafarvogi, alin upp í Breiðholti. Hún ætlar að berjast fyrir barnafjölskyldur, vera öflugur fulltrúi úthverfanna í borgarstjórn og passa upp á reksturinn. Birta ætlar að taka til í rekstrinum og forgangsraða verkefnum sem hafa bein áhrif á líf fólks. Hún þekkir vandamálin af eigin raun og kann á rekstur. Stein Olav er 32 ára stærðfræðikennari í Hagaskóla – eini kennarinn í framboði. Hann vill að betur sé brugðist við vanlíðan ungmenna og stórum áskorunum sem við blasa í skólunum. Hann ætlar að fjölga fagfólki í skólum og gera stuðning við börn og ungmenni markvissari. Með jafnaðarstefnuna að leiðarljósi vill hann tryggja öllum börnum sömu tækifæri.

Það hefur borgað sig að gefa ungu fólki tækifæri í stjórnmálum á Íslandi, ekki síst í Samfylkingunni. Kristrúnu Frostadóttir var 33 ára þegar hún var kjörin til Alþingis og 34 ára þegar hún var kjörin formaður Samfylkingarinnar. Síðan þá hefur Kristrún breytt stjórnmálum á Íslandi, fært þau nær hinum almenna manni og knúið fram raunverulegar breytingar fyrir fólkið í landinu sem forsætisráðherra. Jóhann Páll var kjörinn ásamt Kristrúnu árið 2021, þá 29 ára, og er í dag loftlags-, orku- og umhverfisráðherra þar sem hann hristir upp í hlutunum. Þau eiga framgang sinn í stjórnmálum að miklu leyti samstöðu ungs fólks að þakka. Dagur B. Eggertsson var fenginn í öruggt sæti hjá R-listanum á sínum tíma því Ingibjörg Sólrún sá í honum framtíðarleiðtoga. Hún gerði sér grein fyrir mikilvægi þess að gefa ungum og upprennandi stjórnmálamanni tækifæri og tryggja framtíð jafnaðarstefnunnar sem stjórnmálaafls. Það tókst vel og Samfylkingin stýrði borginni um árabil undir forystu Dags sem breytti Reykjavík til hins betra.

Framgangur ungs fólks innan Samfylkingarinnar er nauðsynlegur til að flokkurinn verði áfram ráðandi afl á Íslandi, bæði í landsmálunum og á sveitarstjórnarstiginu. Til að við byggjum Samfylkingu til framtíðar. Við hvetjum allt Samfylkingarfólk til að kjósa unga fólkið, okkur Bjarnveigu Birtu og Stein Olav, í 3. og 4. sæti. Við erum ung, hæf og klár til verka flokki og borg til sóma.

Höfundar eru frambjóðendur í 3.- og 4. sæti á lista Samfylkingarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×