Handbolti

Ung­verjar með magnaða endur­komu en hvorugt náði Ís­landi að stigum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ungverjinn Adrian Sipos liggur á gólfinu eftir að hafa fengið þungt högg.
Ungverjinn Adrian Sipos liggur á gólfinu eftir að hafa fengið þungt högg. EPA/Andreas Hillergren

Ungverjar komu til baka og náðu jafntefli á móti Svisslendingum í öðrum leik dagsins í milliriðli Íslands á Evrópumótinu í handbolta.

Liðin skyldu jöfn, 29-29, í spennandi og skemmtilegum leik þar sem bæði lið fengu tækifæri til að skora sigurmarkið.

Úrslitin þýða að Ungverjar og Svisslendingar eru með eitt stig eða einu stigi á eftir Íslendingum og Króatum sem unnu strákana okkar fyrr í dag. Slóvenar eru líka með tvö stig eins og Svíar en þau mætast seinna í kvöld.

Það leit þó lengi út fyrir að ungverska liðið væri að fá stóran skell.

Svisslendingar spiluðu frábærlega í fyrri hálfleiknum þar sem liðið skoraði tuttugu mörk og var sex mörkum yfir í hálfleik, 20-14.

Það var ekki nóg með það heldur voru Svisslendingar margoft komnir sjö mörkum yfir, 22-15, 23-16, 24-17 og 25-18 á fyrstu tíu mínútunum í seinni hálfleiknum.

Ungverjum tókst aftur á móti að grafa sig upp úr holunni og voru meira að segja komnir yfir í 29-28 á lokakaflanum eftir að hafa skorað fimm mörk í röð.

Svisslendingar náðu þó að jafna metin og unnu svo boltann aftur. Þá var dæmdur ruðningur og boltinn fór yfir til Ungverja þegar sex sekúndur voru eftir. Ungverska liðið tók leikhlé en tókst að ná almennilegu skoti á markið áður en leiktíminn rann út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×