Innlent

Um 900 manns nú með lög­heimili í Grinda­vík

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, sem var nýlega gestur á opnum fundi Sjálfstæðisflokksins í Árborg.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, sem var nýlega gestur á opnum fundi Sjálfstæðisflokksins í Árborg. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Bæjarstjóri Grindavíkurbæjar segir íbúa horfa björtum augum til framtíðar enda sé nóg að gera í kringum höfnina og þá séu ný fyrirtæki að opna í bæjarfélaginu. Um 900 manns eru með lögheimili í Grindavík í dag en ekki nema um 400 manns, sem eru með fasta búsetu þar.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar var gestur á fundi Sjálfstæðisflokksins í Árborg nýlega þar sem hann fór yfir stöðuna í bæjarfélaginu og það sem fram undan er. Boðið verður fram til sveitarstjórnar þar í vor og svo er þorrablót á næsta leiti, þannig að það er alltaf eitthvað að gerast.

En óttast íbúar nýtt eldgos nú á næstunni?

„Það er vissulega búið að safnast heilmikil kvika og landris mælist enn þá þannig að það getur endað með gosi og þá er það tíunda gosið á þessum slóðum til viðbótar við þrjú gos í Fagradalsfjalli, þannig að við erum bara undir það búin,” segir Fannar.

Fannar segir að áætlanir vegna rýmingar séu allar til staðar komi til eldgoss núna.

En hvað búa margir í Grindavík í dag?

„Það eru um 900 manns með lögheimili í bænum, það eru ekki allir, sem búa þar að staðaldri en það eru svona 400 til 450 manns, sem hafa fasta búsetu þar”.

Erindi Fannars tókst vel og spurðu fundarmenn hann margra spurninga.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Fannar segir að atvinnulífið sé á fullum krafti í Grindavík.

„Það er fullur kraftur í atvinnulífinu, mest í kringum höfnina og það er mikið um landanir heima og heilmikil fiskvinnsla og svo er náttúrulega alls konar þjónusta sem tengist þessu. Svo erum við að fá ný fyrirtæki í bæinn þannig að við horfum björtum augum til framtíðar,” segir Fannar.

En hvernig líður fólki almennt, sem býr í Grindavík?

„Þeir, sem búa í Grindavík bera sig mjög vel og líður vel að vera komin heim. Það væru miklu fleiri, sem vildu vera komnir heim en það er aðeins svona verið að bíða átekta eftir að þessum látum linni. Þá held ég að það verða mjög margir, sem flytjast heim um leið og tækifæri gefst,” segir Fannar bæjarstjóri.

Fannar með frænda sínum á Selfossi, Sigurði Þór Sigurðssyni, sem mættu að sjálfsögðu á fundinn til að hlusta á frænda sinn.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×