Innlent

Willum vill ekki verða for­maður Fram­sóknar

Eiður Þór Árnason skrifar
Willum Þór Þórsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknar.
Willum Þór Þórsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknar. Vísir/Vilhelm

Willum Þór Þórsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og núverandi forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, ætlar ekki að gefa kost á sér sem næsti formaður Framsóknarflokksins. Þess í stað hvetur hann Lilju Dögg Alfreðsdóttur varaformann til að bjóða sig fram til formennsku. 

Willum greinir frá þessu í færslu á Facebook-síðu sinni. Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hefur gefið kost á sér til formanns flokksins á komandi flokksþingi Framsóknar í febrúar. Sækist hún þar með að taka við af Sigurði Inga Jóhannssyni sem sækist ekki eftir endurkjöri.

„Íþróttahreyfingin hefur í gegnum tíðina spilað stórt hlutverk í mínu lífi. Mér var sýndur sá heiður og traust, á síðasta ári, að vera kjörinn forseti ÍSÍ til næstu fjögurra ára,“ skrifar Willum. 

„Nú liggur það fyrir að Framsókn þarf að kjósa sér nýja forystu og hef ég fengið áskoranir um að bjóða mig fram til formennsku. Eftir töluverða umhugsun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að einbeita mér að því að rísa undir því trausti sem ég hef verið kjörinn til og nú er því ekki rétti tímapunkturinn til þess að bjóða mig fram til forystu í Framsókn.“

Willum segir flokksmenn hafa kallað eftir því að hann leiði flokkinn og fyrir það sé hann þakklátur. Nú þurfi Framsókn á sterkri forystu að halda og hann hvetji Lilju til að leiða flokkinn inn í næsta áratug. 

Fréttin er í vinnslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×