Krúnuleikar Trumps konungs Kristinn Hrafnsson skrifar 22. janúar 2026 14:02 Það er alger upplausn á sviði heimsmála og þó að það virðist vera búið að afstýra, eða slá á frest að minnsta kosti, orrustunni um Grænland verður heimurinn aldrei samur eftir síðustu rimmu. Á dögunum hélt ég því fram að ekkert í núverandi stöðu ætti að koma nokkrum á óvart og væri í raun eðlileg afleiðing af langvarandi hnignun og niðurbroti þeirra gilda sem við viljum hafa í hávegum – teljum gjarnan hornsteina siðmenningarinnar. Trump slátraði í upphafi ársins endanlega tálmyndinni um allsherjarreglu með alþjóðalögum, virðingu fyrir fullveldi þjóða og áherslum á lýðræði. Það er komið að endapunkti í þróun sem á sér langa forsögu – hnignunarskeiði í okkar heimshluta og raunar á Jörðinni sem hraðaðist verulega á eftir 11. september 2001. Sá dagur markaði tímamót og vert að setja þar niður stiku. Það er varhugavert að eyða öllu súrefninu í innsog vegna Trumps – enda fremur sjúkdómseinkenni en sjúkdómurinn sjálfur. Þó má vel skoða hann og síðustu útspil til að varpa betra ljósi á heildarmyndina. Það á bæði við um atburði í Venesúela og ásókn í Grænland. Tveir fræðimenn, Stacy Goodard og Abraham Newman, reyna þetta í viðtali við Politico og vísa í nýlega fræðigrein sína í netútgáfu Cambridge University Press. Í stuttu máli telja þeir að það þurfi að spóla býsna langt aftur til að finna sambærilega tíma sem hægt sé að styðjast við í greiningu á núverandi ástandi heimsmála og þar með framgöngu Trumps. Nauðsynlegt sé að átta sig á að heimurinn sem tók á sig mynd með Westphalia-samningunum 1648 (Vestfalíufriðnum) er horfinn en þeir samningar mörkuðu mótun á stöðu þjóðríkja sem hélt lífi býsna lengi þrátt fyrir harða ágjöf. Samningurinn spratt úr rósturskeiði þar sem Evrópa logaði í átökum í 30 ára stríðinu. Kerfið sem tók við breytti vissulega um mynd og sú síðasta í okkar samtímasögu var alþjóðakerfið eftir seinni heimsstyrjöldina sem hefur oft reynt mikið á. Sú heimsregla er farin. Það sem sprettur fram núna kalla fræðimennirnir „Neo-royalisma“ eða nýkóngastefnu. Þetta alþjóðakerfi hverfist um lítinn hóp af ofurelítum sem þeir kalla bara klíkur. Þær stefna að því að gefa valdastöðu sinni lögmæti með vísan til sérstöðu sinnar með það að markmiði að tróna varanlega á toppnum og heimta þaðan afgjald og menningarlega viðurkenningu. Í þessum heimi eru þjóðríkin með sitt skrifræði skoðuð af valdaklíkunum sem fyrirstaða og til vandræða. Lýðræði er líka óþarfi og eiginlega til óþurftar. Það sem ákvarðar stöðu í valdastrúktúrnum er einfaldlega máttur, hvort sem hann er sóttur í vopnavald, peningavald eða guðlegt vald. Þetta er það eina sem skiptir máli. Annað er bara kjaftæði og kerlingabækur. Stephen Miller, helsti ráðgjafi Trumps forseta, tjáði þennan veruleika á einstaklega hreinskiptinn hátt eftir að ráðist var á Venesúela og Madúró forseta rænt. Hann notaði jafnframt tækifærið og mótaði rökin fyrir því af hverju Trump ætti að ráða yfir Grænlandi. Þau voru einföld: Af því hann hafði hernaðarmátt til að taka Grænland hafði hann rétt á að taka Grænland. Þetta er fallega einfalt þó að veruleikinn í útfærslunni kunni að verða ljótur. Það leiðir af sjálfu að í þessu alþjóðakerfi er Trump ekki forseti heldur kóngur eða keisari. Með því að komast í núverandi stöðu hefur hann sýnt að hann sé með náðarvald og geti farið sínu fram, innanlands sem utan, án þess að nokkur bönd séu á honum. Hann ber enga virðingu fyrir neinum nema öðrum ofurvaldsmönnum, milljarðamæringum og sterkum pólitískum leiðtogum sem einnig gera það sem þeim sýnist: Xi, Netanyahu, Mohammed-Bin-Salman, Pútín og að sumu leyti Erdogan og Orban. Svo eru það peningakóngarnir, milljaðamæringarnir eins og Musk, Ellison, Thiel, Miriam Adelson og fleiri. Þetta eru allt kóngar (og staka drottning). Trump hefur ekki dregið dul á að hann metur gildi milljarðamæringanna út frá auðgildi þeirra og telur það til merkis um snilligáfu að hafa komist í slíkar álnir. Í ræðu sinni í Davos mærði hann þennan hóp og lofaði að styðja hann og vernda. Trump vill samt viðurkenningu á því að hann sé konungur konunganna. Af hverju? Jú, af því að hann er með öflugasta herinn og hefur heldur ekki skafið af þeirri skoðun sinni að hann sé jöfnunarlaus snillingur og mesti leiðtogi sem Bandaríkin hafi nokkru sinni átt. Trump I Um leið og menn horfa á heildarmyndina án þess að Bandaríkin og hagsmunir ríkisins eða almennra bandarískra borgara séu í forgrunni heldur fyrst og síðast klíkuhópar – aðallega amerískra – valdsmanna er „skynsemi“ í galskap Trumps skýrari. Árásin á Venesúela og ránið á Madúró hafði ekkert með stjórnkerfisbreytingar að gera né nokkurn vilja til að koma á lýðræði í landinu. Það hentar Trump raunar betur að vinna með stjórnvöldum sem hafa uppi alræðistilburði. Þess vegna spýtti Trump Maríu Corrínu Machado, friðarverðlaunahafa, umsvifalaust út í horn þegar hann hafði rænt Maduro. Hún hafði þjónað sínum tilgangi (gerðist líka sek um að þiggja friðarverðlaun Nobels sem Trump „átti“ – en þau friðarverðlaun urðu engu að síður hluti af réttlætingarferli árásarinnar á Venesúela). Trump kýs miklu heldur vinna með arftaka Maduros, Delcy Rodriguez, með því að halda byssunni að höfði hennar. Ef hún hlýðir ekki og viðurkennir að Trump ræður yfir auðlindum landsins liggur í loftinu sú hótun að hún hljóti sömu örlög og Madúró og kóngurinn noti her sinn til að þvinga fram þann mótaðila sem er tilbúinn til að beygja hnéð og hlýða. Það var einnig áhugavert að sjá þá senu þegar Trump skikkaði til sín fulltrúa bandarísku olíurisanna til þess að láta þá vita að þeir yrðu að koma að hans hásæti til að fá aðgang að mestu olíubirgðum heims í Venesúela. Sumir voru hálfsúrir og ekki alveg að makka með. Fulltrúi Exxon-Mobil tuðaði eitthvað um að það væri nú ef til vill ekki eftirsóknarvert að fara í vinnslu í Venesúela, alls kyns erfiðleikar í vinnslunni og óstöðugleiki í loftinu. Trump brjálaðist og hótaði því að útiloka kompaníið frá gæðum krúnunnar. Þetta er stjórnunarstíllinn Áhuginn á Grænlandi er ekki flóknari en þetta. Þar eru auðlindir í jörðu sem Trump vill yfirráð yfir og vill vera í þeirri stöðu að láta menn koma beint til sín til að fá aðgang. Það breytir engu að auður úr námum í Grænlandi er sýnd veiði en ekki gefin – Trump sjálfur vill ríkja yfir þeim potti, þá og þegar einhver vill gerast lukkuriddari á þeim vettvangi. Vitaskuld vill Trump fá sinn hlut, með einum eða öðrum hætti. Það er heldur ekki ólíklegt að Trump vilji líka hreinlega reisa sér bautastein með því að hafa stækkað Bandaríkin. Hvað sem að baki liggur eru ekki nokkur haldbær rök fyrir því að ásælni Rússa eða Kínverja kalli á eignarhald Bandaríkjanna enda ef slík hætta væri fyrir hendi, sem engar vísbendingar eru um í bráð, hefur Trump full tækifæri til að auka hernaðarumsvif á Grænlandi og þarf nánast varla að nefna það við Dani nema af kurteisi. Sá samningur sem nú er boðaður um Grænland liggur ekki fyrir í smáatriðum en virðist endurspegla að Bandaríkin fá allt sem þeir hefðu hvort eð er fengið – án þess að hóta að taka landið með hervaldi. Í Úkraínu sér Trump fyrst og fremst tækifæri fyrir sig og aðrar kíkur í hans hring til að auðgast með aðgangi að landi og auðlindum. Honum er slétt sama um hvernig landamæri Úkraínu líta út – og yfirhöfuð hvernig stjórnarfar er þar sem annars staðar, svo fremi sem hann og hans vinir fá sitt út úr „dílunum“. Sama á við um Gaza. Þar eru bara fasteignatækifæri í hans augum og hlutdeild í fyrirséðum hagnaði stórfyrirtækjanna sem skoppa á eftir honum á fundi í Ísrael, veita aðstoð við þjóðarmorð gegn greiðslu, eins og tæknifyrirtækin gera, auk þess að hagnast á hefðbundinni vopnasölu. Í þessum þankagangi eru stofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið hindranir sem þarf að veikja eða slátra. Þegar Evrópa reynir að koma böndum á stjórnlausan tæknirisa eins og Elon Musk lítur konungur konunganna á það sem árás á bandamann sinn og sína eigin hagsmuni. Það er vegið að hagsmunum hirðarinnar. Krúnuleikarnir Í raun og veru er heimsmyndin í dag hrá og grimm án þess að mikið sé gert í að fela það lengur. Þetta á fremur skylt við sögusvið Krúnuleikanna (Game of Thrones) en nokkra reglu. Því fyrr sem fólk áttar sig á þessu, því skynsamlegri verða viðbrögðin. Með mesta herstyrk heims á bak við sig þurfa menn að mæta fyrir framan hásæti konungs og beygja hnéð eða eiga það á hættu að verða brytjaðir niður. Þeir sem mæta fyrir kónginn með gamla snjáða samninga, NATO-samninginn, varnarsamninginn, viðskiptasamninga, mannréttindayfirlýsingar og að maður tali nú ekki um eitthvað mjálm um sanngirni og forsögu sambands „vinaþjóða“, uppskera hæðnislegan aðhlátur. Það segir sig sjálft að það er heldur ekki boðlegt að bera slíkt orðfæri á borð fyrir alþýðu manna sem stendur berskjaldaður að baki þeim sem ganga á fund konungs. Það er beinlínis móðgandi blekkileikur og vanvirðing við heilbrigða skynsemi. Velkomin til sautjándu aldar En ef við þurfum að bakka til baka til sautjándu aldar, hvaða örlög bíða manna í veruleika hins hráa og grimma valds? Thomas Hobbes upplifði rósturskeið í Englandi um miðja þá öld og væri líklegast að hugsa til þess þegar hann vísaði til þess sem hinn almenni borgari gæti vænst þegar stöðugt kerfi er ekki til staðar með sterku ríkisvaldi. Lífið þá var „einmanalegt, snautt, ljótt, grimmlegt og stutt“ („solitary, poor, nasty, brutish, and short“), skrifaði Hobbes í Leviathan sem kom út 1651. Þetta var tími endalausra stríða, sjórána, mannrána og ömurlegs atlætis fyrir flesta þegna sem reyndu eftir fremsta megni að fóta sig í algerri upplausn. Þetta var veruleiki Evrópu allt fram til þess að skikkan myndaðist með Westphalia-samningunum 1648. Helstu sögulegir atburðir á Íslandi á þessu skeiði mörkuðust af þessum tíðaranda, meðal annars fjöldamorðin á basknesku skipbrotsmönnunum 1615 og Tyrkjaránið (sem var ekki tyrkneskt) árið 1627. Í þessu upplausnarástandi fóru menn sínu fram óhindrað í krafti þess valds sem fólst í titlum eða vopnum. Jafnvel smágreifar eins og Ari í Ögri gátu skikkað menn til að fremja óhæfuverk og slátra tugum Baska og fjölþjóðlegu áhafnirnar á „tyrknesku“ skipunum, undir yfirstjórn Hollendings, gátu rænt fólki og selt á markaði og sallað niður þá sem voru með andóf eða þóttu ekki góð markaðsvara. Ósigur Dana í 30 ára stríðinu sem þeir duttu snemma út úr, gerði konungsríkið veikt og valdalítið og um leið varð Ísland afskipt og varnarlaust. Danakóngur var svo illa staddur fjárhagslega að það tók óratíma að fá hann til að reiða af hendi lausnarfé fyrir þá Íslendinga sem teknir höfðu verið höndum og fluttir í Barbaríið en stóð þó til boða að fá frjálsa gegn lausnargjaldi. Þá sem nú þjónar afþreyingariðnaðurinn hinum sterku, sigurvegurum átaka. Shakespeare hafði vit á að haga seglum eftir vindi og engin tilviljun að illmennin í hans verkum, eins og Ríkharður III, tilheyrðu þeim sem urðu undir í valdabaráttu um krúnuna í Rósastríðinu. Söguskoðun Tudor-ættarinnar birtist á leiksviðinu. Ari í Ögri fékk séra Ólaf á Söndum til að semja hetjuljóð um víg á hinum grimmu Spánverjum og brást vitaskuld ókvæða við þegar Jón lærði setti á blað narratívu í „Sannri frásögu“ sem gekk á skjön við glansmyndina um hetjudáðina. Þau skrif voru fyrsta verk sem kalla má rannóknarblaðamennsku á Íslandi og fyrir þau þurfti Jón að gjalda dýru verði. Hollywood birtir þá mynd að bandarískir hermenn hafi bjargað Evrópu frá Nazistum en sú mynd er á skjön við skráð mannfall hvar 200-250 þúsund bandarískir hermenn féllu á Evrópusviði seinni heimsstyrjaldarinnar en 9-11 milljónir sovéskra hermanna týndu þar lífi. Í Davos í Sviss sagði Trump forseti við áhorfendur „Ef við hefðum ekki komið til bjargar væruð þið öll að tala þýsku“. Vill reyndar svo til að 2/3 Svisslendinga hafa þýsku að móðurmáli en það er önnur saga. Valdaklíkurnar í dag leggja nú allt kapp á að stjórna narratívunni enda mikilvæg vopn til að tryggja völd þeirra. Valdaklíka zíónista undir stjórn Netanyahu gengur hreint fram í að viðurkenna að stríðið um lögmæti þjóðarmorðsins á Gaza snýst um að ná valdi á – og vopnavæða samfélagsmiðla. Fylginautar hans í Ameríku hafa brugðist við enda stendur nú yfir slagur um yfirráð yfir þeim miðlum sem ekki voru undir nægjanlegri stjórn fyrir, sem og yfir afþreyingarbatteríum sem leynt og ljóst skilgreina menningarlega markalínur góðs og ills. Meginstraumsfjölmiðlar hafa algerlega brugðist hlutverki sínu. Þeir hefðu átt, allir sem einn, að svipta hulunni af þeirri fölsku glansmynd sem við höfum lifað í. Smám saman hefur líka tiltrú á þeim hrunið og upp úr þeirri mynd sprottið ákveðið upplýsingaanarkí. Viðbragðið við því hefur verið rangt. Reynt er með valdboði að þröngva hinu stjórnlausa ástandi aftur í rifna leppa fortíðarinnar – úr regluheiminum sem er horfinn. Sú fortíð kemur hins vegar aldrei aftur. Mistökin felast í að sjá ekki að í hinu anarkíska upplausnarástandi felast ótal tækifæri til nýmyndunar en ekki aðeins ógn og skelfing. Hvar er von? Hrun alþjóðareglunnar og viðblasandi afturhvarf til óróatíma 17. aldar kallar á algera uppstokkun. Það er ekki útilokað að smíða nýja skipan úr þessu upplausnarástandi. Vonin til þess virtist lítil en þó kann að vera að rofa til. Fyrsta skrefið er að hrökkva úr gír afneitunar og viðurkenna mistök. Ræða Mark Carney, forsætisráðherra Kanada, á ráðstefnunni í Davos í vikunni vakti feikna athygli. Það ferskasta í ræðu hans var viðurkenning á stöðunni. Það er orðið algert rof – ekki umbreytingarskeið, sagði Carney. Í annan stað vakti athygli að hann viðurkenndi að við höfum alltof lengi lifað í blekkingarheimi um hið góða alþjóðakerfi sem grundvallast á reglu og samstöðu. Við höfum lokað augunum fyrir þeirri hroðalegu tvöfeldni sem óð uppi. Reglurnar giltu ekki fyrir alla. Þeir sterku voru með undanþágur. Þeir veiku voru réttminni eða réttlausir. Þetta var heiðarlegt og rétt hjá Carney en fór fram hjá flestum fréttaskýrendum. Það leiðir af sjálfu að kanadíski forsætisráðherrann var um leið að viðurkenna sekt, samsekt, í því að hafa tekið virkan þátt í að viðhalda lyginni og jafnvel tekið beinan þátt í óhæfuverkum sem framin voru í skjóli lyginnar. Það tók til dæmis tímann sinn að kalla skelfinguna á Gaza þjóðarmorð. Það þurfti dráp á tugþúsundum barna til að brjóta niður lygina og það hefur enn ekki tekist að fullu. Lygin um hið góða stríð í Afganistan lifði allt of lengi, lýgin um réttlætingu innrásarinnar í Írak lifði ekki lengi en við tóku önnur lygi um að þrátt fyrir það væri nú eitthvað gott í þessu. Lygin um að rústun Líbíu væri stök góðmennska var lengi viðloðandi. Sannleikurinn um að stórfelldur flóttamannastraumur til Evrópu væri að drjúgum hluta okkur sjálfum að kenna vegna stríðsaðgerða á ekki upp á pallborðið og sú einfalda reikniaðferð varð sumum algerlega ofviða. Alltof margir trúa enn lygasögum um hælisleitendur. Þegar Ari í Ögri fékk bændur til að taka þátt í að brytja niður basknesku skipbrotsmennina var það með þeim rökum að ella myndu þeir éta réttborna Íslendinga út á gaddinn. Þetta væru líka tómir ofbeldismenn og ribbaldar þó að eina sagan því til stuðnings var reiði Baskanna yfir því að klerkur einn vildi ekki selja þeim kvígu svo þeir brugðu snæri um háls honum. Efalítið fannst Böskunum ranglátt að fá ekki aðstoð eftir að hafa gefið Íslendingum hestburði af ferskmeti af hvölum gegn litlu eða engu gjaldi. Jón lærði gat um að eftir fjöldamorðin hafi margir þátttakendur séð að sér og grátið af skömm í fangi eiginkvenna. Grátið af skömm eins og þýsku íbúarnir í Dachau, þorpinu í grennd við Munchen þegar bandamenn smöluðu þeim í fangabúðirnar þar í stríðslok til að kynna þeim skelfingu helfararinnar sem þar hafði farið fram undir þeirra nefi. Þjóðverjunum fannst gott að lifa í lygi nasista. Nú um stundir eru allt of margir sem kjósa að elta lygar Ara í Ögri sem genginn er aftur. Kemur að því að þeir gráta af skömm? Stríðsyfirlýsingar Kanadíski forsætisráðherrann Carney telur að millistór og minni ríki hafi viðspyrnu og geti sameinast um eitthvað sem megi kalla sameiginleg gildi, friðar, mannréttinda, réttlætis og velferðar. Í þetta skipti í raun og sannleik – ekki í blekkingu og tvískinnungi. Það má vel vera að möguleiki sé fólginn í því en ekki með því að einblína á þjóðríkið sem einu leikendurna á sviðinu – nú þegar Vestfalíufriðurinn er úti. Það verður að taka tillit til þess að samþjöppun valds einstaklinganna getur ekki verið bundin girðingum þjóðríkins. Sú hugsun verður að fá byr að þetta snúist ekki um að ríki snúi bökum saman heldur að þjóðir sameinist. Við verðum að fara að sjá möguleikana sem felast í þeim veruleika sem ungt fólk hefur alist upp við þar sem heimilisfestan er ekki íslenskt póstnúmer heldur alþjóðleg IP-tala. En pólitískir leiðtogar hérlendis sem annars staðar verða að trúa orðum kanadíska forsætisráðherrans. Það er orðið algert rof. Það þýðir til dæmis að Atlantshafsbandalagið er dautt og verður ekki upp á það lappað. Andúð Trumps á NATO kemur ekki úr tómarúmi og hefur lengi verið umkvörtun í Bandaríkjunum að önnur aðildarríki legðu ekki nóg til bandalagsins. Tölulega séð er þetta réttmæt gagnrýni og lítil reisn Evrópu að útvista vörnum álfunnar með litlu tilleggi. Menn súpa seyðið af því í dag. Það var hins vegar stjörnugalið af Trump að halda því fram í uppistandi sínu í Davos að NATO hafi ekkert gert fyrir Bandaríkin. Í eina skipti sögunnar þar sem 5. grein sáttmálans var virkjuð (sú sem segir að árás á einn skuli skoða sem árás á alla) var í kjölfar árásanna 11. september 2001. Á þeim grunni tók NATO yfir hernaðinn í Afganistan og sendi þangað hermenn, þar á meðal Ísland. Þó að þeir hernaðarleiðangrar hafi verið misráðnir hlýtur það að vera móðgun, sérstaklega í eyrum Dana, að heyra ásökun um að hafa ekkert lagt til. Danskir hermenn voru sendir á hættulegasta vígsvæði Afganistan, í Helmand-hérað og fórust þar hátt í 50 hermenn. Miðað við höfðatölu aðildarríkja var mannfall danskra hermanna meira en flestallra annarra NATO ríkja. Þó að Trump hafi sagt í Davos að hann ætlaði ekki að beita hervaldi til að sölsa undir sig Grænland er ljóst að á það er ekki að treysta. Heldur ekki á þær yfirlýsingar síðar sama dag að hann hefði fallið frá tollaálögum á þau ríki sem settu sig upp á móti Grænlandsyfirtökunni. Þetta kann að vera afstaða sem breytist í næstu umferð í hugarsnúningi Trump konungs. Línur eru hins vegar skýrar. Fyrir hálfum mánuði mátti lesa þessa yfirlýsingu Kristrúnar Frostadóttur á forsíðu Heimildarinnar: „Við getum treyst á Bandaríkin“. Ég man varla eftir pólitískri yfirlýsingu sem eltist jafn illa og þessi. Við þessu ástandi þarf að bregðast án hiks og með því að fara í breiða bandalagsmyndun hvar sem bandamenn kunna að finnast. Það þarf að hugsa leiðir með frjórri nálgun, ekki frösum. Það þarf að hugsa út fyrir rammann – sem er sjálfgert því hann er horfinn. Á hverfanda hveli Heimurinn er í upplausn og í því ástandi er hollt að hugsa um kjarna mennskunnar, hlúa að einingunni, öryggi og festu sem felst í vina- og fjölskyldutengslum. Hætta að eltast við frasa og sveipa okkur orðaleppum hins horfna tíma. Hætta að lifa í lyginni. Hætta að blekkja okkur til átrúnaðar á gamlar sögur um vinaríki eða dáin bandalög eins og NATO. Þrátt fyrir ýmislegt jákvætt innan ESB er það heldur ekki helgilausn, að minnsta kosti ekki ein og sér. Við eigum ekki að fyllast örvæntingu heldur halda ró okkar þó að Pótemkin-tjöldin séu hrunin. Við þurfum að átta okkur á því að það hefur verið lýst yfir stríði gegn okkur. Það stríð var fyrirséð og náði að læðast að okkur eingöngu vegna þess að við neituðum að horfa í áttina að því. Það eru aldarhvörf og þá er eitt öðru mikilvægara, það að við vitum hver við erum. Okkur er þröngvað aftur til fortíðar en við höfum skyldur við framtíðina. Ef við getum sótt einhvern lærdóm til fortíðar er það skynbragðið á heiður og sóma. Slíkar tilfinningar bærast í okkur flestum og á þær verður að treysta. Annars er hætt við að afkomendurnir gráti af skömm yfir aðgerðum okkar eða amlóðaskap. Höfundur er ritstjóri Wikileaks. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Siðlaust en fullkomlega löglegt Jónas Yngvi Ásgrímsson Skoðun Við erum að missa klefann Arnar Ingi Ingason Skoðun Krúnuleikar Trumps konungs Kristinn Hrafnsson Skoðun Stóra sameiginlega sýnin um betra borgarsvæði – og Suðurlandsbraut Arnar Þór Ingólfsson Skoðun Flugvélar hinna fordæmdu Óskar Guðmundsson Skoðun Milljarðasóun í boði andvaraleysis – Illa farið með almannafé og fólk Davíð Bergmann Skoðun Hvar er unga jafnaðarfólkið í Ráðhúsinu? Kristín Soffía Jónsdóttir Skoðun Samfylking og Reykjavík til sigurs Pétur Marteinsson Skoðun Dóra Björt er ljúfur nagli Eydís Sara Óskarsdóttir Skoðun Hugmyndin fyrir brandara – hakakró! Maciej Szott Skoðun Skoðun Skoðun Hvar er unga jafnaðarfólkið í Ráðhúsinu? Kristín Soffía Jónsdóttir skrifar Skoðun Fjárfestum í farsælli framtíð Líf Lárusdóttir skrifar Skoðun Krúnuleikar Trumps konungs Kristinn Hrafnsson skrifar Skoðun Stuðningur við lista- og menningarstarf í höfuðborginni Magnea Marinósdóttir skrifar Skoðun Loðnuveiðar og stærð þorskstofna Guðmundur J. Óskarsson,Jónas P. Jónasson skrifar Skoðun Börn með fjölþættan vanda - hver ber ábyrgð og hvað er til ráða? Haraldur L. Haraldsson,Regína Ásvaldsdóttir,Þ:orbjörg Helga Vigfúsdóttir skrifar Skoðun Flugvélar hinna fordæmdu Óskar Guðmundsson skrifar Skoðun Siðlaust en fullkomlega löglegt Jónas Yngvi Ásgrímsson skrifar Skoðun Endurræsum fyrir börnin okkar og kennarana Jón Pétur Zimsen skrifar Skoðun Samfylking og Reykjavík til sigurs Pétur Marteinsson skrifar Skoðun Hugmyndin fyrir brandara – hakakró! Maciej Szott skrifar Skoðun Markmið fyrir iðnað, innantóm orð fyrir náttúru Elvar Örn Friðriksson skrifar Skoðun Dóra Björt er ljúfur nagli Eydís Sara Óskarsdóttir skrifar Skoðun Milljarðasóun í boði andvaraleysis – Illa farið með almannafé og fólk Davíð Bergmann skrifar Skoðun Steinunn GG hefur það sem mestu skiptir Sverrir Þórisson skrifar Skoðun Við erum að missa klefann Arnar Ingi Ingason skrifar Skoðun Framtíð íslenskunnar í alþjóðlegan heimi Alaina Bush skrifar Skoðun Stóra sameiginlega sýnin um betra borgarsvæði – og Suðurlandsbraut Arnar Þór Ingólfsson skrifar Skoðun 4% – varúðarviðmið sem byggist á vísindum Lísa Anne Libungan skrifar Skoðun Tölum Breiðholtið upp Valný Óttarsdóttir skrifar Skoðun Að leiðast er ekki alltaf leiðinlegt Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar Skoðun Loftslagsáhætta er öryggismál Jóhann Páll Jóhannsson,Johan Rockström skrifar Skoðun Borgin sem við byggjum er fjölbreytt borg Heiða Björg Hilmisdóttir skrifar Skoðun Hversdagurinn er ævintýri Skúli S. Ólafsson skrifar Skoðun Lærdómur frá Grænlandi um fæðuöryggi Erna Bjarnadóttir skrifar Skoðun Staðan á húsnæðismarkaði orsök fátæktar einstaklinga og fjölskyldna – Hugmynd að lausn við bráðavanda Magnea Marinósdóttir skrifar Skoðun Ísland–Kanada Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir skrifar Skoðun Jákvæð þróun í leikskólamálum Skúli Helgason skrifar Skoðun Eru fjáröflunarherferðir KÍ, Mottumars og Bleika slaufan, siðferðilega réttlætanlegar? Einar Páll Svavarsson skrifar Skoðun Einn deilibíll kemur í stað 16 einkabíla Kristín Hrefna Halldórsdóttir skrifar Sjá meira
Það er alger upplausn á sviði heimsmála og þó að það virðist vera búið að afstýra, eða slá á frest að minnsta kosti, orrustunni um Grænland verður heimurinn aldrei samur eftir síðustu rimmu. Á dögunum hélt ég því fram að ekkert í núverandi stöðu ætti að koma nokkrum á óvart og væri í raun eðlileg afleiðing af langvarandi hnignun og niðurbroti þeirra gilda sem við viljum hafa í hávegum – teljum gjarnan hornsteina siðmenningarinnar. Trump slátraði í upphafi ársins endanlega tálmyndinni um allsherjarreglu með alþjóðalögum, virðingu fyrir fullveldi þjóða og áherslum á lýðræði. Það er komið að endapunkti í þróun sem á sér langa forsögu – hnignunarskeiði í okkar heimshluta og raunar á Jörðinni sem hraðaðist verulega á eftir 11. september 2001. Sá dagur markaði tímamót og vert að setja þar niður stiku. Það er varhugavert að eyða öllu súrefninu í innsog vegna Trumps – enda fremur sjúkdómseinkenni en sjúkdómurinn sjálfur. Þó má vel skoða hann og síðustu útspil til að varpa betra ljósi á heildarmyndina. Það á bæði við um atburði í Venesúela og ásókn í Grænland. Tveir fræðimenn, Stacy Goodard og Abraham Newman, reyna þetta í viðtali við Politico og vísa í nýlega fræðigrein sína í netútgáfu Cambridge University Press. Í stuttu máli telja þeir að það þurfi að spóla býsna langt aftur til að finna sambærilega tíma sem hægt sé að styðjast við í greiningu á núverandi ástandi heimsmála og þar með framgöngu Trumps. Nauðsynlegt sé að átta sig á að heimurinn sem tók á sig mynd með Westphalia-samningunum 1648 (Vestfalíufriðnum) er horfinn en þeir samningar mörkuðu mótun á stöðu þjóðríkja sem hélt lífi býsna lengi þrátt fyrir harða ágjöf. Samningurinn spratt úr rósturskeiði þar sem Evrópa logaði í átökum í 30 ára stríðinu. Kerfið sem tók við breytti vissulega um mynd og sú síðasta í okkar samtímasögu var alþjóðakerfið eftir seinni heimsstyrjöldina sem hefur oft reynt mikið á. Sú heimsregla er farin. Það sem sprettur fram núna kalla fræðimennirnir „Neo-royalisma“ eða nýkóngastefnu. Þetta alþjóðakerfi hverfist um lítinn hóp af ofurelítum sem þeir kalla bara klíkur. Þær stefna að því að gefa valdastöðu sinni lögmæti með vísan til sérstöðu sinnar með það að markmiði að tróna varanlega á toppnum og heimta þaðan afgjald og menningarlega viðurkenningu. Í þessum heimi eru þjóðríkin með sitt skrifræði skoðuð af valdaklíkunum sem fyrirstaða og til vandræða. Lýðræði er líka óþarfi og eiginlega til óþurftar. Það sem ákvarðar stöðu í valdastrúktúrnum er einfaldlega máttur, hvort sem hann er sóttur í vopnavald, peningavald eða guðlegt vald. Þetta er það eina sem skiptir máli. Annað er bara kjaftæði og kerlingabækur. Stephen Miller, helsti ráðgjafi Trumps forseta, tjáði þennan veruleika á einstaklega hreinskiptinn hátt eftir að ráðist var á Venesúela og Madúró forseta rænt. Hann notaði jafnframt tækifærið og mótaði rökin fyrir því af hverju Trump ætti að ráða yfir Grænlandi. Þau voru einföld: Af því hann hafði hernaðarmátt til að taka Grænland hafði hann rétt á að taka Grænland. Þetta er fallega einfalt þó að veruleikinn í útfærslunni kunni að verða ljótur. Það leiðir af sjálfu að í þessu alþjóðakerfi er Trump ekki forseti heldur kóngur eða keisari. Með því að komast í núverandi stöðu hefur hann sýnt að hann sé með náðarvald og geti farið sínu fram, innanlands sem utan, án þess að nokkur bönd séu á honum. Hann ber enga virðingu fyrir neinum nema öðrum ofurvaldsmönnum, milljarðamæringum og sterkum pólitískum leiðtogum sem einnig gera það sem þeim sýnist: Xi, Netanyahu, Mohammed-Bin-Salman, Pútín og að sumu leyti Erdogan og Orban. Svo eru það peningakóngarnir, milljaðamæringarnir eins og Musk, Ellison, Thiel, Miriam Adelson og fleiri. Þetta eru allt kóngar (og staka drottning). Trump hefur ekki dregið dul á að hann metur gildi milljarðamæringanna út frá auðgildi þeirra og telur það til merkis um snilligáfu að hafa komist í slíkar álnir. Í ræðu sinni í Davos mærði hann þennan hóp og lofaði að styðja hann og vernda. Trump vill samt viðurkenningu á því að hann sé konungur konunganna. Af hverju? Jú, af því að hann er með öflugasta herinn og hefur heldur ekki skafið af þeirri skoðun sinni að hann sé jöfnunarlaus snillingur og mesti leiðtogi sem Bandaríkin hafi nokkru sinni átt. Trump I Um leið og menn horfa á heildarmyndina án þess að Bandaríkin og hagsmunir ríkisins eða almennra bandarískra borgara séu í forgrunni heldur fyrst og síðast klíkuhópar – aðallega amerískra – valdsmanna er „skynsemi“ í galskap Trumps skýrari. Árásin á Venesúela og ránið á Madúró hafði ekkert með stjórnkerfisbreytingar að gera né nokkurn vilja til að koma á lýðræði í landinu. Það hentar Trump raunar betur að vinna með stjórnvöldum sem hafa uppi alræðistilburði. Þess vegna spýtti Trump Maríu Corrínu Machado, friðarverðlaunahafa, umsvifalaust út í horn þegar hann hafði rænt Maduro. Hún hafði þjónað sínum tilgangi (gerðist líka sek um að þiggja friðarverðlaun Nobels sem Trump „átti“ – en þau friðarverðlaun urðu engu að síður hluti af réttlætingarferli árásarinnar á Venesúela). Trump kýs miklu heldur vinna með arftaka Maduros, Delcy Rodriguez, með því að halda byssunni að höfði hennar. Ef hún hlýðir ekki og viðurkennir að Trump ræður yfir auðlindum landsins liggur í loftinu sú hótun að hún hljóti sömu örlög og Madúró og kóngurinn noti her sinn til að þvinga fram þann mótaðila sem er tilbúinn til að beygja hnéð og hlýða. Það var einnig áhugavert að sjá þá senu þegar Trump skikkaði til sín fulltrúa bandarísku olíurisanna til þess að láta þá vita að þeir yrðu að koma að hans hásæti til að fá aðgang að mestu olíubirgðum heims í Venesúela. Sumir voru hálfsúrir og ekki alveg að makka með. Fulltrúi Exxon-Mobil tuðaði eitthvað um að það væri nú ef til vill ekki eftirsóknarvert að fara í vinnslu í Venesúela, alls kyns erfiðleikar í vinnslunni og óstöðugleiki í loftinu. Trump brjálaðist og hótaði því að útiloka kompaníið frá gæðum krúnunnar. Þetta er stjórnunarstíllinn Áhuginn á Grænlandi er ekki flóknari en þetta. Þar eru auðlindir í jörðu sem Trump vill yfirráð yfir og vill vera í þeirri stöðu að láta menn koma beint til sín til að fá aðgang. Það breytir engu að auður úr námum í Grænlandi er sýnd veiði en ekki gefin – Trump sjálfur vill ríkja yfir þeim potti, þá og þegar einhver vill gerast lukkuriddari á þeim vettvangi. Vitaskuld vill Trump fá sinn hlut, með einum eða öðrum hætti. Það er heldur ekki ólíklegt að Trump vilji líka hreinlega reisa sér bautastein með því að hafa stækkað Bandaríkin. Hvað sem að baki liggur eru ekki nokkur haldbær rök fyrir því að ásælni Rússa eða Kínverja kalli á eignarhald Bandaríkjanna enda ef slík hætta væri fyrir hendi, sem engar vísbendingar eru um í bráð, hefur Trump full tækifæri til að auka hernaðarumsvif á Grænlandi og þarf nánast varla að nefna það við Dani nema af kurteisi. Sá samningur sem nú er boðaður um Grænland liggur ekki fyrir í smáatriðum en virðist endurspegla að Bandaríkin fá allt sem þeir hefðu hvort eð er fengið – án þess að hóta að taka landið með hervaldi. Í Úkraínu sér Trump fyrst og fremst tækifæri fyrir sig og aðrar kíkur í hans hring til að auðgast með aðgangi að landi og auðlindum. Honum er slétt sama um hvernig landamæri Úkraínu líta út – og yfirhöfuð hvernig stjórnarfar er þar sem annars staðar, svo fremi sem hann og hans vinir fá sitt út úr „dílunum“. Sama á við um Gaza. Þar eru bara fasteignatækifæri í hans augum og hlutdeild í fyrirséðum hagnaði stórfyrirtækjanna sem skoppa á eftir honum á fundi í Ísrael, veita aðstoð við þjóðarmorð gegn greiðslu, eins og tæknifyrirtækin gera, auk þess að hagnast á hefðbundinni vopnasölu. Í þessum þankagangi eru stofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið hindranir sem þarf að veikja eða slátra. Þegar Evrópa reynir að koma böndum á stjórnlausan tæknirisa eins og Elon Musk lítur konungur konunganna á það sem árás á bandamann sinn og sína eigin hagsmuni. Það er vegið að hagsmunum hirðarinnar. Krúnuleikarnir Í raun og veru er heimsmyndin í dag hrá og grimm án þess að mikið sé gert í að fela það lengur. Þetta á fremur skylt við sögusvið Krúnuleikanna (Game of Thrones) en nokkra reglu. Því fyrr sem fólk áttar sig á þessu, því skynsamlegri verða viðbrögðin. Með mesta herstyrk heims á bak við sig þurfa menn að mæta fyrir framan hásæti konungs og beygja hnéð eða eiga það á hættu að verða brytjaðir niður. Þeir sem mæta fyrir kónginn með gamla snjáða samninga, NATO-samninginn, varnarsamninginn, viðskiptasamninga, mannréttindayfirlýsingar og að maður tali nú ekki um eitthvað mjálm um sanngirni og forsögu sambands „vinaþjóða“, uppskera hæðnislegan aðhlátur. Það segir sig sjálft að það er heldur ekki boðlegt að bera slíkt orðfæri á borð fyrir alþýðu manna sem stendur berskjaldaður að baki þeim sem ganga á fund konungs. Það er beinlínis móðgandi blekkileikur og vanvirðing við heilbrigða skynsemi. Velkomin til sautjándu aldar En ef við þurfum að bakka til baka til sautjándu aldar, hvaða örlög bíða manna í veruleika hins hráa og grimma valds? Thomas Hobbes upplifði rósturskeið í Englandi um miðja þá öld og væri líklegast að hugsa til þess þegar hann vísaði til þess sem hinn almenni borgari gæti vænst þegar stöðugt kerfi er ekki til staðar með sterku ríkisvaldi. Lífið þá var „einmanalegt, snautt, ljótt, grimmlegt og stutt“ („solitary, poor, nasty, brutish, and short“), skrifaði Hobbes í Leviathan sem kom út 1651. Þetta var tími endalausra stríða, sjórána, mannrána og ömurlegs atlætis fyrir flesta þegna sem reyndu eftir fremsta megni að fóta sig í algerri upplausn. Þetta var veruleiki Evrópu allt fram til þess að skikkan myndaðist með Westphalia-samningunum 1648. Helstu sögulegir atburðir á Íslandi á þessu skeiði mörkuðust af þessum tíðaranda, meðal annars fjöldamorðin á basknesku skipbrotsmönnunum 1615 og Tyrkjaránið (sem var ekki tyrkneskt) árið 1627. Í þessu upplausnarástandi fóru menn sínu fram óhindrað í krafti þess valds sem fólst í titlum eða vopnum. Jafnvel smágreifar eins og Ari í Ögri gátu skikkað menn til að fremja óhæfuverk og slátra tugum Baska og fjölþjóðlegu áhafnirnar á „tyrknesku“ skipunum, undir yfirstjórn Hollendings, gátu rænt fólki og selt á markaði og sallað niður þá sem voru með andóf eða þóttu ekki góð markaðsvara. Ósigur Dana í 30 ára stríðinu sem þeir duttu snemma út úr, gerði konungsríkið veikt og valdalítið og um leið varð Ísland afskipt og varnarlaust. Danakóngur var svo illa staddur fjárhagslega að það tók óratíma að fá hann til að reiða af hendi lausnarfé fyrir þá Íslendinga sem teknir höfðu verið höndum og fluttir í Barbaríið en stóð þó til boða að fá frjálsa gegn lausnargjaldi. Þá sem nú þjónar afþreyingariðnaðurinn hinum sterku, sigurvegurum átaka. Shakespeare hafði vit á að haga seglum eftir vindi og engin tilviljun að illmennin í hans verkum, eins og Ríkharður III, tilheyrðu þeim sem urðu undir í valdabaráttu um krúnuna í Rósastríðinu. Söguskoðun Tudor-ættarinnar birtist á leiksviðinu. Ari í Ögri fékk séra Ólaf á Söndum til að semja hetjuljóð um víg á hinum grimmu Spánverjum og brást vitaskuld ókvæða við þegar Jón lærði setti á blað narratívu í „Sannri frásögu“ sem gekk á skjön við glansmyndina um hetjudáðina. Þau skrif voru fyrsta verk sem kalla má rannóknarblaðamennsku á Íslandi og fyrir þau þurfti Jón að gjalda dýru verði. Hollywood birtir þá mynd að bandarískir hermenn hafi bjargað Evrópu frá Nazistum en sú mynd er á skjön við skráð mannfall hvar 200-250 þúsund bandarískir hermenn féllu á Evrópusviði seinni heimsstyrjaldarinnar en 9-11 milljónir sovéskra hermanna týndu þar lífi. Í Davos í Sviss sagði Trump forseti við áhorfendur „Ef við hefðum ekki komið til bjargar væruð þið öll að tala þýsku“. Vill reyndar svo til að 2/3 Svisslendinga hafa þýsku að móðurmáli en það er önnur saga. Valdaklíkurnar í dag leggja nú allt kapp á að stjórna narratívunni enda mikilvæg vopn til að tryggja völd þeirra. Valdaklíka zíónista undir stjórn Netanyahu gengur hreint fram í að viðurkenna að stríðið um lögmæti þjóðarmorðsins á Gaza snýst um að ná valdi á – og vopnavæða samfélagsmiðla. Fylginautar hans í Ameríku hafa brugðist við enda stendur nú yfir slagur um yfirráð yfir þeim miðlum sem ekki voru undir nægjanlegri stjórn fyrir, sem og yfir afþreyingarbatteríum sem leynt og ljóst skilgreina menningarlega markalínur góðs og ills. Meginstraumsfjölmiðlar hafa algerlega brugðist hlutverki sínu. Þeir hefðu átt, allir sem einn, að svipta hulunni af þeirri fölsku glansmynd sem við höfum lifað í. Smám saman hefur líka tiltrú á þeim hrunið og upp úr þeirri mynd sprottið ákveðið upplýsingaanarkí. Viðbragðið við því hefur verið rangt. Reynt er með valdboði að þröngva hinu stjórnlausa ástandi aftur í rifna leppa fortíðarinnar – úr regluheiminum sem er horfinn. Sú fortíð kemur hins vegar aldrei aftur. Mistökin felast í að sjá ekki að í hinu anarkíska upplausnarástandi felast ótal tækifæri til nýmyndunar en ekki aðeins ógn og skelfing. Hvar er von? Hrun alþjóðareglunnar og viðblasandi afturhvarf til óróatíma 17. aldar kallar á algera uppstokkun. Það er ekki útilokað að smíða nýja skipan úr þessu upplausnarástandi. Vonin til þess virtist lítil en þó kann að vera að rofa til. Fyrsta skrefið er að hrökkva úr gír afneitunar og viðurkenna mistök. Ræða Mark Carney, forsætisráðherra Kanada, á ráðstefnunni í Davos í vikunni vakti feikna athygli. Það ferskasta í ræðu hans var viðurkenning á stöðunni. Það er orðið algert rof – ekki umbreytingarskeið, sagði Carney. Í annan stað vakti athygli að hann viðurkenndi að við höfum alltof lengi lifað í blekkingarheimi um hið góða alþjóðakerfi sem grundvallast á reglu og samstöðu. Við höfum lokað augunum fyrir þeirri hroðalegu tvöfeldni sem óð uppi. Reglurnar giltu ekki fyrir alla. Þeir sterku voru með undanþágur. Þeir veiku voru réttminni eða réttlausir. Þetta var heiðarlegt og rétt hjá Carney en fór fram hjá flestum fréttaskýrendum. Það leiðir af sjálfu að kanadíski forsætisráðherrann var um leið að viðurkenna sekt, samsekt, í því að hafa tekið virkan þátt í að viðhalda lyginni og jafnvel tekið beinan þátt í óhæfuverkum sem framin voru í skjóli lyginnar. Það tók til dæmis tímann sinn að kalla skelfinguna á Gaza þjóðarmorð. Það þurfti dráp á tugþúsundum barna til að brjóta niður lygina og það hefur enn ekki tekist að fullu. Lygin um hið góða stríð í Afganistan lifði allt of lengi, lýgin um réttlætingu innrásarinnar í Írak lifði ekki lengi en við tóku önnur lygi um að þrátt fyrir það væri nú eitthvað gott í þessu. Lygin um að rústun Líbíu væri stök góðmennska var lengi viðloðandi. Sannleikurinn um að stórfelldur flóttamannastraumur til Evrópu væri að drjúgum hluta okkur sjálfum að kenna vegna stríðsaðgerða á ekki upp á pallborðið og sú einfalda reikniaðferð varð sumum algerlega ofviða. Alltof margir trúa enn lygasögum um hælisleitendur. Þegar Ari í Ögri fékk bændur til að taka þátt í að brytja niður basknesku skipbrotsmennina var það með þeim rökum að ella myndu þeir éta réttborna Íslendinga út á gaddinn. Þetta væru líka tómir ofbeldismenn og ribbaldar þó að eina sagan því til stuðnings var reiði Baskanna yfir því að klerkur einn vildi ekki selja þeim kvígu svo þeir brugðu snæri um háls honum. Efalítið fannst Böskunum ranglátt að fá ekki aðstoð eftir að hafa gefið Íslendingum hestburði af ferskmeti af hvölum gegn litlu eða engu gjaldi. Jón lærði gat um að eftir fjöldamorðin hafi margir þátttakendur séð að sér og grátið af skömm í fangi eiginkvenna. Grátið af skömm eins og þýsku íbúarnir í Dachau, þorpinu í grennd við Munchen þegar bandamenn smöluðu þeim í fangabúðirnar þar í stríðslok til að kynna þeim skelfingu helfararinnar sem þar hafði farið fram undir þeirra nefi. Þjóðverjunum fannst gott að lifa í lygi nasista. Nú um stundir eru allt of margir sem kjósa að elta lygar Ara í Ögri sem genginn er aftur. Kemur að því að þeir gráta af skömm? Stríðsyfirlýsingar Kanadíski forsætisráðherrann Carney telur að millistór og minni ríki hafi viðspyrnu og geti sameinast um eitthvað sem megi kalla sameiginleg gildi, friðar, mannréttinda, réttlætis og velferðar. Í þetta skipti í raun og sannleik – ekki í blekkingu og tvískinnungi. Það má vel vera að möguleiki sé fólginn í því en ekki með því að einblína á þjóðríkið sem einu leikendurna á sviðinu – nú þegar Vestfalíufriðurinn er úti. Það verður að taka tillit til þess að samþjöppun valds einstaklinganna getur ekki verið bundin girðingum þjóðríkins. Sú hugsun verður að fá byr að þetta snúist ekki um að ríki snúi bökum saman heldur að þjóðir sameinist. Við verðum að fara að sjá möguleikana sem felast í þeim veruleika sem ungt fólk hefur alist upp við þar sem heimilisfestan er ekki íslenskt póstnúmer heldur alþjóðleg IP-tala. En pólitískir leiðtogar hérlendis sem annars staðar verða að trúa orðum kanadíska forsætisráðherrans. Það er orðið algert rof. Það þýðir til dæmis að Atlantshafsbandalagið er dautt og verður ekki upp á það lappað. Andúð Trumps á NATO kemur ekki úr tómarúmi og hefur lengi verið umkvörtun í Bandaríkjunum að önnur aðildarríki legðu ekki nóg til bandalagsins. Tölulega séð er þetta réttmæt gagnrýni og lítil reisn Evrópu að útvista vörnum álfunnar með litlu tilleggi. Menn súpa seyðið af því í dag. Það var hins vegar stjörnugalið af Trump að halda því fram í uppistandi sínu í Davos að NATO hafi ekkert gert fyrir Bandaríkin. Í eina skipti sögunnar þar sem 5. grein sáttmálans var virkjuð (sú sem segir að árás á einn skuli skoða sem árás á alla) var í kjölfar árásanna 11. september 2001. Á þeim grunni tók NATO yfir hernaðinn í Afganistan og sendi þangað hermenn, þar á meðal Ísland. Þó að þeir hernaðarleiðangrar hafi verið misráðnir hlýtur það að vera móðgun, sérstaklega í eyrum Dana, að heyra ásökun um að hafa ekkert lagt til. Danskir hermenn voru sendir á hættulegasta vígsvæði Afganistan, í Helmand-hérað og fórust þar hátt í 50 hermenn. Miðað við höfðatölu aðildarríkja var mannfall danskra hermanna meira en flestallra annarra NATO ríkja. Þó að Trump hafi sagt í Davos að hann ætlaði ekki að beita hervaldi til að sölsa undir sig Grænland er ljóst að á það er ekki að treysta. Heldur ekki á þær yfirlýsingar síðar sama dag að hann hefði fallið frá tollaálögum á þau ríki sem settu sig upp á móti Grænlandsyfirtökunni. Þetta kann að vera afstaða sem breytist í næstu umferð í hugarsnúningi Trump konungs. Línur eru hins vegar skýrar. Fyrir hálfum mánuði mátti lesa þessa yfirlýsingu Kristrúnar Frostadóttur á forsíðu Heimildarinnar: „Við getum treyst á Bandaríkin“. Ég man varla eftir pólitískri yfirlýsingu sem eltist jafn illa og þessi. Við þessu ástandi þarf að bregðast án hiks og með því að fara í breiða bandalagsmyndun hvar sem bandamenn kunna að finnast. Það þarf að hugsa leiðir með frjórri nálgun, ekki frösum. Það þarf að hugsa út fyrir rammann – sem er sjálfgert því hann er horfinn. Á hverfanda hveli Heimurinn er í upplausn og í því ástandi er hollt að hugsa um kjarna mennskunnar, hlúa að einingunni, öryggi og festu sem felst í vina- og fjölskyldutengslum. Hætta að eltast við frasa og sveipa okkur orðaleppum hins horfna tíma. Hætta að lifa í lyginni. Hætta að blekkja okkur til átrúnaðar á gamlar sögur um vinaríki eða dáin bandalög eins og NATO. Þrátt fyrir ýmislegt jákvætt innan ESB er það heldur ekki helgilausn, að minnsta kosti ekki ein og sér. Við eigum ekki að fyllast örvæntingu heldur halda ró okkar þó að Pótemkin-tjöldin séu hrunin. Við þurfum að átta okkur á því að það hefur verið lýst yfir stríði gegn okkur. Það stríð var fyrirséð og náði að læðast að okkur eingöngu vegna þess að við neituðum að horfa í áttina að því. Það eru aldarhvörf og þá er eitt öðru mikilvægara, það að við vitum hver við erum. Okkur er þröngvað aftur til fortíðar en við höfum skyldur við framtíðina. Ef við getum sótt einhvern lærdóm til fortíðar er það skynbragðið á heiður og sóma. Slíkar tilfinningar bærast í okkur flestum og á þær verður að treysta. Annars er hætt við að afkomendurnir gráti af skömm yfir aðgerðum okkar eða amlóðaskap. Höfundur er ritstjóri Wikileaks.
Skoðun Börn með fjölþættan vanda - hver ber ábyrgð og hvað er til ráða? Haraldur L. Haraldsson,Regína Ásvaldsdóttir,Þ:orbjörg Helga Vigfúsdóttir skrifar
Skoðun Milljarðasóun í boði andvaraleysis – Illa farið með almannafé og fólk Davíð Bergmann skrifar
Skoðun Stóra sameiginlega sýnin um betra borgarsvæði – og Suðurlandsbraut Arnar Þór Ingólfsson skrifar
Skoðun Staðan á húsnæðismarkaði orsök fátæktar einstaklinga og fjölskyldna – Hugmynd að lausn við bráðavanda Magnea Marinósdóttir skrifar
Skoðun Eru fjáröflunarherferðir KÍ, Mottumars og Bleika slaufan, siðferðilega réttlætanlegar? Einar Páll Svavarsson skrifar