Skoðun

Sið­laust en full­kom­lega lög­legt

Jónas Yngvi Ásgrímsson skrifar

Þessa dagana er mikið rætt um Veitur og hvernig hagnaður þeirra rennur til eigenda. Að auki hefur verið bent á mikla hækkun á gjaldskrám Veitna sem bitnar náttúrulega fyrst og fremst á almenningi sem búsettur er á sölusvæði Veitna. Í framhaldinu fór ég að hugsa um þessa snilldarleið sem sveitarstjórnarmenn hafa fundið upp til að fara á svig við lögin til að afla tekna hjá sveitarfélaginu sínu og láta íbúana borga brúsann en samt án þess að hækka álögur á íbúana.

Samkvæmt reglum um fjármál sveitarfélaga skal þess gætt að þjónustugjöld fari ekki fram úr kostnaði þjónustunnar, þ.e. að ýmsir þjónustuhlutar, s.s. sorphirða, mega ekki fá hærri tekjur en kostnaður vegna þjónustunnar. En hvernig er hægt að leysa þetta. Það er dagljóst að sveitarfélag má ekki rukka meira fyrir þjónustu s.s. heitt vatn, sorphirðu, leikskóla o.s.frv. en kostnaður vegna hennar nemur. Þá kemur snilldarleiðin til sögunnar. Sveitarfélagið stofnar bara sér fyrirtæki um þjónustuna sem síðan rukkar notendur þjónustunnar samkvæmt heimatilbúinni gjaldskrá og hagnast ótæpilega. Síðan er hagnaðurinn greiddur til eigandans (sveitarfélagsins) sem arður og allir eru glaðir, nema kannski þeir sem þurfa að standa undir hagnaðnum.

Því miður virðist allt of algengt að þessi aðferð sé stunduð til að fjármagna sveitarfélög á svig við lög. Sennilega er þetta löglegt en algerlega siðlaust. Hækkanir þessara fyrirtækja sveitarfélaganna verða svo til þess að verðbólga eykst, verðtryggð lán hækka, húsaleiga hækkar og almenningur hefur minni pening milli handanna eftir að hafa staðið skil á hækkunum sem ábyrgðarlaus fyrirtæki í eigu sveitarfélaga stofna til. Eftir standa sveitarstjórnarmenn og fría sig allri ábyrgð á hækkunum, enda var það fyrirtækið sem hækkað taxta en ekki sveitarfélagið.

Við gerð síðustu kjarasamninga var mikið talað um að launahækkanir hafi svo mikil áhrif á verðbólgu. Því var gerð sú tilraun að semja um hófstilltar launahækkanir með von um að það yrði til þess að ríki, sveitarfélög og atvinnulífið myndi líka leggjast á árarnar og halda verðhækkunum í skefjum. Þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur atvinnulífið ekki tekið á sig raunverulega ábyrgð heldur einungis passað að hagnaður fyrirtækjanna og arðsemi þeirra haldi áfram að skila eigendunum milljörðum í vasann.

Höfundur er varaþingmaður Flokks fólksins og stjórnarmaður í VR.




Skoðun

Sjá meira


×