Viðskipti innlent

Setja stefnuna á seinni hluta árs

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Ekkert verður úr fyrirhuguðu jómfrúarflugi Niceair þann 19. febrúar. 
Ekkert verður úr fyrirhuguðu jómfrúarflugi Niceair þann 19. febrúar.  Vísir/Tryggvi Páll

Forsvarsmenn Niceair 2.0 reikna með að fyrsta áætlunarflug félagsins verði flogið á seinni hluta ársins. Þeir sem þegar áttu bókað flug með félaginu fá það endurgreitt auk inneignarnótu. 

Greint var frá því í dag að fyrirhuguðu jómfrúarflugi Niceair hefði verið aflýst. Flugfélagið væri þó ekki að hætta rekstri heldur þyrfti meiri tíma til undirbúnings. 

Í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér í kvöld segir að ákvörðunin um að fresta fyrsta fluginu hafi verið í kjölfar ítarlegrar yfirferðar á núverandi bókunarstöðu og rekstrarviðbúnaði.

Eftirspurn hafi reynst minni en áætlað var og fyrstu áætlunarflugum því verið aflýst. 

Martin Michael, framkvæmdastjóri Niceair, segir mikilvægt að endurvekja félagið á ábyrgan hátt.

„Við bjuggumst við að fólk hefði efasemdir og bókunartölurnar staðfestu það. Að fara í loftið með hálftóma vél í fyrsta flugi er viðskiptalegt sjálfsmorð,“ er haft eftir honum í fréttatilkynningu. 

Þá kemur fram að fyrirhugað sé að hefja áætlunarflug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar á seinni hluta ársins ef allt gengur að óskum. 

Niceair hóf fyrst að fljúga frá Akureyri árið 2022 en varð gjaldþrota ári síðar. Nú í desember var greint frá því að Martin Michael, þýskur athafnamaður, hefði tekið við rekstrinum og var fyrsta flugferð Niceair 2.0 áætluð þann 19. febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×