Skoðun

Hval­veiðar í sviðs­ljósinu

Elissa Phillips skrifar

Við Anahita erum aftur í sviðsljósinu. Í þessari viku erum við að horfast í augu við afleiðingar mótmælaaðgerða okkar. Sakamálið á Íslandi verður loks tekið fyrir þann 22. janúar. Við vorum handteknar fyrir borgaralega óhlýðni, þar sem við mótmæltum friðsamlega hvalveiðum í atvinnuskyni. Þrátt fyrir að við höfum alltaf verið tilbúnar að axla ábyrgð, bjuggumst við ekki við því að málið myndi dragast svona mikið á langinn - í yfir tvö ár! Nú þegar aðalmeðferð nálgast í Héraðsdómi Reykjavíkur er áhersla okkar að halda hvölum í fréttunum. Við höldum áfram að þrýsta á stjórnvöld að banna hvalveiðar alfarið og til frambúðar. Í hreinskilni sagt finnst mér hugmyndin um að klifra aftur upp í mastur vera minna ógnvekjandi en að mæta fyrir dómstóla.

Auðvitað hefur þetta persónuleg áhrif á okkur, en í stærra samhengi er réttarhöldunum ætlað að vera sjónarspil til að draga athyglina frá raunveruleikanum: grimmilegum drápum á langreyðum, hvalategund í útrýmingarhættu. Allt þetta minnir helst á handrit fyrir Hollywood kvikmynd. Þar er helsta illmennið, Kristján Loftsson, sem kallar sig sjálfur „kaptein Ahab” (aðalpersóna Moby Dick). Hann er stoltur af því að drepa hvali. Að auki hafa komið fram leynilegar upptökur af sviksamlegum samskiptum, sem sanna klíkuskap milli hans og stjórnvalda. Brot á lögum og harðar lögregluaðgerðir koma við sögu í þessu handriti. En það eru einungis við Anahita sem þurfum að taka afleiðingunum.

Mikið er gert úr því að við höfum reynt að stöðva veiðarnar með líkama okkar. Kaldhæðnin er sú að við vorum í raun að framfylgja íslenskum dýraverndarlögum með friðsamlegum hætti. Við ollum engu tjóni. Skipin sem við stigum um borð í sigldu til veiða með sprengiskutla, hannaða til að drepa langreyðar. Sambærileg mótmæli hafa átt sér stað áður, án nokkurra aðgerða lögreglu.

Við erum kynntar sem glæpamenn, á meðan hvalveiðilögin eru enn óbreytt. Undanfarna mánuði höfum við tvisvar haft beint samband við atvinnuvegaráðherra, Hönnu Katrínu Friðriksson, um þetta mál án þess að fá svar. Í lok síðustu viku ítrekaði hún í fjölmiðlum áform sín um að banna hvalveiðar alfarið, sem eru frábær tíðindi og sýnir þá hugrökku afstöðu sem þarf! Hins vegar hefur ákvörðuninni enn á ný verið frestað fram á haust. Það þýðir að með núverandi illa fengnu leyfi frá sitjandi ráðherra í lok 2024 gætu hvalveiðar átt sér stað sumarið 2026.

Við hefðum getað samþykkt sektina strax við handtökuna. Við kusum að láta málið fara fyrir dóm. Okkur hefur ítrekað verið sagt hversu ólíklegt það sé að við vinnum málið. Við stöndum við gjörðir okkar og vitum hvers vegna við fórum um borð í hvalveiðibátana. Eftir margra ára baráttu, þar sem við höfum séð íslensk lög bregðast hvölunum aftur og aftur, gerðum við það eina sem eftir stóð og settum okkur sjálfar í veg fyrir brottför bátanna. Hvort sem fólk er sammála aðgerðum okkar eða ekki, þá stendur sú staðreynd eftir að við mótmæltum friðsamlega og að hvalirnir tilheyra ekki Íslandi. Þeir eru villt dýr sem ferðast langar leiðir um höfin með viðkomu við Ísland, þeir ekki skilið að vera skotnir að undirlagi hégómlegs manns sem veit ekki aura sinna tal.

Höfundur er framkvæmdastjóri Incredible Oceans í Bretlandi.




Skoðun

Skoðun

Byggjum fyrir fólk

Hafdís Hanna Ægisdóttir,Hjördís Sveinsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×