Innlent

Styrk­leiki að for­maður Fram­sóknar eigi sæti á þingi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ingibjörg Isaksen er sú eina af þeim sem orðuð hefur verið við formann Framsóknar sem á sæti á þingi.
Ingibjörg Isaksen er sú eina af þeim sem orðuð hefur verið við formann Framsóknar sem á sæti á þingi. Vísir/Vilhelm

Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður Framsóknarflokksins hefur boðið sig fram til formanns flokksins. Þetta tilkynnti hún í morgun en hún segir flokkinn standa á tímamótum og mikilvægt að formaður flokksins eigi sæti á Alþingi.

Flokksþing Framsóknarflokksins fer fram dagana 14. til 15. febrúar og verður þar kjörinn nýr formaður flokksins en Sigurður Ingi Jóhannsson hyggst eftir níu ár í embætti ekki bjóða sig fram aftur. Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi tilkynnti framboð í morgun og er sú fyrsta til að gera það formlega.

„Framsókn stendur í dag á tímamótum og samfélagið líka,“ segir Ingibjörg í samtali við fréttastofu. „Staða flokksins í dag er með þeim hætti að það er kallað á breytingar og nýja tíma. Við erum að fara að kjósa okkur forrustu um miðjan febrúar þar sem verður kosið um formann, varaformann og ritara. Ég hef fengið mikla hvatningu og skorað á mig úr mörgum áttum og þetta eru spennandi tímar fyrir Framsókn.“

Hún segist búa að góðri reynslu úr sveitarstjórnarmálum og landsmálum sem þingflokksformaður. Hafi setið í stjórn og stjórnarandstöðu sem sé dýrmæt reynsla sem geti nýst henni áfram í verkefninu fái hún umboð til þess.

Þegar hefur Stefán Vagn Stefánsson boðið sig fram til varaformanns flokksins og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir býður sig áfram til að gegna embætti ritara. Ingibjörg segist vona að fleiri bjóði sig fram til formanns. Ítrekað hefur verið skorað á bæði Willum Þór Þórsson og Lilju Alfreðsdóttur að gefa kost á sér og liggja þau nú undir feldi. Bæði eru þau utan þings eftir síðustu Alþingiskosningar.

Þeir sem hafa verið orðaðir við framboð í formanninn, þau eru bæði utan þings, finnst þér skipta máli að formaður Framsóknar sé á þingi?

„Það er vissulega áskorun að vera utan þings og ég tala nú ekki um ef við erum að horfa til næstu þriggja ára, ef við sjáum að það verði kosningar eftir kjörtímabilið. En það eru vissulega stór mál núna í umræðu á þinginu og það skiptir máli að hafa sterka rödd fyrir okkur í Framsókn. Þannig það er styrkleiki að formaðurinn sé í þinginu og sitji á þingi. En auðvitað er það þannig að við í Framsókn erum samvinnuflokkur og sama hvaða einstakling flokksfélagar okkar kjósa sér til forrustu þá munum við finna leiðir til að láta það ganga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×