Innlent

Hljóp á sig

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Líf Magneudóttir sækist eftir fyrsta sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík.
Líf Magneudóttir sækist eftir fyrsta sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík. Vísir/Anton Brink

Líf Magneudóttir segist hafa hlaupið á sig þegar hún hélt því fram að ekki hafi verið samþykkt á félagsfundi Vinstri grænna að Vor til vinstri myndi leiða sameiginlegt framboð. Hún styðji tillöguna og áformin en ætlar að bjóða sig fram í fyrsta sæti í forvali VG.

Vinstri hreyfing - grænt framboð í Reykjavík tilkynnti í gær að hreyfingin hyggist mynda bandalag við Vor til vinstri og bjóða fram í sameiginlegu framboði í komandi borgarstjórnarkosningum. Sanna Magdalena Mörtudóttir úr Vori til vinstri mun leiða framboðið og fulltrúar Vors til vinstri skipa einnig fjórða og fimmta sæti.

Líf Magneudóttir oddviti VG í borginni sagði hins vegar í gær að tillagan sem var samþykkt hafi ekki gengið út á það að Vor til vinstri fengi fyrsta sætið. Stjórnarkona í Vinstri grænum í Reykjavík svaraði því í fréttum Bylgjunnar að það hefði hins vegar verið alveg skýrt.

Í samtali við fréttastofu segir Líf að viðbrögð sín hefðu mátt vera önnur.

„Þetta var auðvitað svolítið óheppilegt og ég skal bara taka það á mig í sannleika sagt. Ég var ekki búin að sjá það sem stjórn Vinstri grænna sendi frá sér,“ segir hún.

„Ég skal bara taka það á mig að ég hefði mátt vanda mig betur og vera minni pappakassi. Fara minna í formið. Én ég held að þetta sé búið. Ég er búin að koma því á framfæri að ég styð þetta hundrað prósent og hef mikla trú á sameiningu félagshyggjufólks. Við getum kannski í framhaldinu hætt að rífast um keisarans skegg og formið.“

Styður Sönnu

Líf segist styðja Sönnu Magdalenu í oddvitasætið. Finnur Ricart Andrason hefur þegar tilkynnt að hann hyggist bjóða sig fram sig í oddvitasæti Vinstri grænna í forvali þeirra. Líf ætlar einnig að bjóða sig fram í fyrsta sætið.

„Það hef ég alltaf sagt og við það stend ég.“

Í framhaldinu verði svo ákveðið hvernig verður raðað á nýja listann. Líf segir verið að kanna hvort breyta eigi um nafn sameiginlegs framboðs. Sú vinna sé í gangi.

Sanna Magdalena hjá Vori til vinstri segist ekki hafa gert kröfu um oddvitasætið.

„Ég geri ekki neina kröfu um slíkt en ég sé að það er skýrt ákall um það og þakka kærlega fyrir það traust,“ segir hún.

„Mér finnst auðvitað frábært að við vinstri hreyfingarnar séum tilbúnar að vinna saman og það þarf að leggja áherslu á það að við erum í þjónustuhlutverki við borgarbúa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×