Innlent

Loðnu­ver­tíð hafin og floti farinn til loðnumælinga

Kristján Már Unnarsson skrifar
Polar Amaroq veiddi fyrstu loðnuna á þessari vertíð á Austfjarðaamiðum í morgun.
Polar Amaroq veiddi fyrstu loðnuna á þessari vertíð á Austfjarðaamiðum í morgun. KMU

Loðnuvertíðin er hafin en fyrsta loðnan veiddist í dag út af Austfjörðum og er stefnt að því að henni verði landað á Norðfirði á morgun. Þá héldu fimm skip á miðin í dag til loðnumælinga á vegum Hafrannsóknastofnunar en niðurstöðurnar ráða miklu um það hversu stór loðnukvótinn verður.

Í kvöldfréttum Sýnar var fjallað um loðnuna en nýtt flaggskip Hafrannsóknastofnunar, Þórunn Þórðardóttir, hélt úr Hafnarfirði í gær í sína fyrstu loðnumælingu. Og í dag héldu fjögur önnur skip til mælinga.

Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarveiða hjá Hafrannsóknastofnun, segir þessa loðnuvertíð geta orðið skárri en þær sem á undan komu.

„Tvö árin á undan voru slök, en það er svona stígandi í þessu. Við skulum segja það þannig, það lítur betur út með þennan árgang heldur en árgangana tvo þar á undan,“ segir fiskifræðingurinn.

Guðmundur J. Óskarsson fiskifræðingur er sviðsstjóri uppsjávarveiða hjá Hafrannsóknastofnun.Bjarni Einarsson

Auk rannsóknaskipanna Þórunnar og Árna Friðrikssonar sendir útgerðin þrjú skip í leiðangurinn; Barða, Heimaey og Polar Amaroq. Áætlað er að niðurstöður mælinganna geti legið fyrir eftir rúma viku en fylgjast má með siglingu skipanna á vef Hafrannsóknastofnunar.

„Það er mjög gott að hafa öll þessi skip og geta tekið þetta á sem skemmstum tíma og farið þéttar línur yfir allt útbreiðslusvæðið. Þetta er stórt svæði sem þarf að dekka,“ segir Guðmundur.

Kortið sýnir fyrirhugaða siglingaferla skipanna fimm sem taka þátt í loðnumælingunni.grafík/Hjalti Freyr Ragnarsson

Raunar veiddi grænlenska skipið Polar Amaroq fyrstu loðnu þessarar vertíðar í dag á Austfjarðamiðum. Stefnt er að því að henni verði landað á Norðfirði á morgun.

Nýútgefinn loðnukvóti upp á 31 þúsund tonn gæti verið ávísun á allt að tíu milljarða króna útflutningsverðmæti. Það eru þó ekki nema þrjú ár síðan við höfðum 50 til 60 milljarða króna loðnuvertíð. Það er því mikið í húfi að meira finnist.

Siglingaferlar skipanna fimm sem mæla loðnuna um klukkan 22 í kvöld. Þórunn Þórðardóttir er gul, Árni Friðriksson blágrænn, Polar Ammasak bleikur, Barði hvítur og Heimaey appelsínugul.Hafrannsóknastofnun

„Ég ætla ekki að fara að vera með einhverjar vonir. En þetta getur alveg sveiflast frá. Þannig að það eru einhverjir tugir þúsunda örugglega, miðað við bara eins og við þekkjum þetta, til eða frá.“

-Þannig að það er von um eitthvað meira?

„Það getur alveg gerst, já. En, það getur líka orðið minna. Við skulum orða það þannig,“ svarar fiskifræðingurinn í frétt Sýnar, sjá má hér:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×