Erlent

„Þetta er ekki það sem við sam­þykktum“

Hólmfríður Gísladóttir og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Karoline Leavitt og Lars Løkke Rasmussen virðast alls ekki sammála um það hvert hlutverk starfshópsins verður sem ákveðið var að setja á fót eftir fundinn í Washington í vikunni.
Karoline Leavitt og Lars Løkke Rasmussen virðast alls ekki sammála um það hvert hlutverk starfshópsins verður sem ákveðið var að setja á fót eftir fundinn í Washington í vikunni. EPA

Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, sagði í gær að ef Bandaríkin virtu ekki yfirráðarétt Danmerkur yfir Grænlandi og sjálfsákvörðunarrétt Grænlendinga yrði nýskipaður starfshópur um framtíð Grænlands líklega skammlífur.

Ummælin lét Rasmussen falla í yfirlýsingu eftir að greint var frá því að Karoline Leavitt, fjömiðlafulltrúi Hvíta hússins, sagði að sendinefndin frá Danmörku og Grænlandi sem fundaði með fulltrúum Bandaríkjanna í Washington DC í vikunni hefði samþykkt að halda áfram viðræðum um það hvernig Bandaríkin myndu eignast Grænland.

Túlka hlutverk starfshópsins á gjörólíkan hátt

Það ætlaði allt um koll að keyra í umfjöllun danskra fjölmiðla um málið í gær, eftir að Leavitt lét ummælin falla í samtali við blaðamenn í Hvíta húsinu í gær.

„Fundurinn var gagnlegur. Þetta var góður fundur og á honum samþykktu báðar hliðar að setja á starfshóp sem samanstendur af einstaklingum sem munu halda áfram að eiga viðræður um tæknilega útfærslu yfirtökunnar á Grænlandi,“ sagði Leavitt meðal annars.

Við þessu brást Løkke við í samtali við danska ríkisútvarpið DR fljótlega í framhaldinu. „Þetta er ekki það sem við samþykktum,“ sagði Løkke. Það sé þvert á móti hans skilningur að markmiðið með starfshópnum sé að reyna að finna sameiginlega leið fram á við. Starfshópurinn eigi að einblína bæði á áhyggjur Bandaríkjamanna af öryggismálum, en á sama tíma virða mörk Danska konungsríkisins sem hafi sett skýra „rauða línu“ hvað varðar yfirráð á Grænlandi.

Þessa ólíku túlkun á hlutverki starfshópsins segja greinendur undirstrika hversu flóknar viðræður eru framundan.

Ellefu bandarískir þingmenn heimsækja danska þingið

Á sama tíma og Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hvergi haggast í afstöðu sinni um að segjast þurfa að eignast Grænland, sækja bandarískir þingmenn danska Folketinget heim í dag. Hópur gestanna samanstendur af bandarískum þingmönnum úr báðum þingdeildum en í heimsókninni til danska þingsins er markmiðið að vinna að samstarfi á milli Grænlands, Danmerkur og Bandaríkjanna.

Bandaríska sendinefndin telur ellefu þingmenn. Það eru öldungadeildarþingmennirnir Chris Coons, Dick Durbin, Peter Welch og Jeanne Shaheen úr röðum Demókrata, og Repúblikanarnir Thom Tillis og Lisa Murkowski. Þá eru með í för fulltrúadeildarþingmennirnir Steny Hoyer, Gregory Meeks, Madeleine Dean, Sara Jacobs og Sarah McBride sem öll eru Demókratar. Óhætt er að segja að þessi hópur þingmanna, sem koma úr báðum flokkum, sé ekki á sama máli og Trump hvað varðar eignarhald Bandaríkjanna á Grænlandi.

„Ég held að þau vilji fyrst og fremst gjarnan senda merki um það til dönsku ríkisstjórnarinnar og til annarra NATO-ríkja, að það eru önnur Bandaríki. Og kannski reyna að skapa ró og segja: Við höfum að einhverju leyti ráð um það hvað Bandaríkjaforsetinn gerir,“ hefur DR eftir Niels Bjerre-Poulsen, lektor í Bandaríkjafræðum við Syddansk Universitet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×