Innlent

Ör­yrkjar eru með hærri laun en eldri borgarar

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Björn Snæbjörnsson, formaður Landssambands eldri borgara á fundinum í Reykholti í Bláskógabyggð.
Björn Snæbjörnsson, formaður Landssambands eldri borgara á fundinum í Reykholti í Bláskógabyggð. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Öryrkjar eru að fá mun hærri laun frá Tryggingastofnun en eldri borgarar eða um 51 þúsund krónur meira á mánuði miðað við lágmarkslífeyri eldri borgara eins og staðan er í dag.

Björn Snæbjörnsson, formaður Landssambands eldri borgara og Oddný Árnadóttir framkvæmdastjóri sambandsins eru á fundarherferð um landið þessa dagana þar, sem þau funda með fulltrúum félaganna út um allt land. Fundur númer þrjátíu var haldinn í Reykholti í Bláskógabyggð en alls verða fundirnir 59 og verða þeir kláraðir fyrir apríllok.

En hver eru brýnustu málin hjá eldri borgurum í dag?

„Brýnustu málin eru náttúrulega það að menn geti lifað af því, sem þeir fá frá Tryggingastofnun og sínum lífeyrissjóði. Það eru of margir, sem eru með of lítið og eru að berjast í bökkum,” segir Björn og bætir við að um 10 þúsund eldri borgarar séu nú undir lágmarkstaxta sé miðað við þann taxta, sem er á almenna vinnumarkaðnum.

„Það er 365.000 kall, sem er lágmarkslífeyrir,” segir Björn.

Hluti af fundarmönnum á fundinum í Reykholti mánudaginn 12. janúar.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Fram kom hjá Birni að öryrkjar, sem fengu hækkun á sínum launum 1. september síðastliðinn hafi mun hærri tekjur en eldri borgarar eru að fá í dag en öryrkjar eru nú komnir um 51 þúsund krónum upp fyrir lágmarkslífeyri eldri borgara í launum. Það sést vel á glæru, sem Björn var með.

„Og þið sjáið núna að munurinn á því að grunnlífeyririnn hjá öryrkjunum og eldri borgurunum er orðinn 51.357 krónur á mánuði, sem er dálítið mikið,” segir Björn.

Ein af glærunum, sem Björn var með á fundinum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvernig tekur hann því?

„Ég bara fagna því að þeir skulu fá hækkun en nú tel ég að það sé bara komið að okkur eldri borgurum”.

Elínborg Sigurðardóttir, formaður Félags eldri borgara í Bláskógabyggð var ánægð með fundinn í Reykholti.

„Mér finnst að við eigum að berjast fyrir þeim, sem hafa það skítt eins og Björn segir, þessum 10 til 12 þúsund manns á landinu, sem að eru mest megnið konur. Ég held að margt af þessu fólki hafi það skítt, þessi hópur og við þurfum að berjast fyrir þeim,” segir Elínborg.

Elínborg Sigurðardóttir, sem er formaður Félags eldri borgara í Bláskógabyggð setti fundinn og sleit honum. Á eftir var öllum boðið upp á súpu og brauð og kaffi á eftir.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×