Skoðun

Blóra­böggull fundinn!

Jenný Gunnbjörnsdóttir skrifar

Nýr barna- og menntamálaráðherra býður fram krafta sína við að gera börnin okkar læs, sem er gott…en

Traust byggist á að farið sé með rétt mál, að upplýsinga sé aflað og ákvarðanir teknar á grundvelli þeirra. Ef það er rétt sem Inga Sæland, barna-og menntamálaráðherra segir í fjölmiðlum, að 50% drengja sé ólæs að lokinni 10 ára grunnskólagöngu og að það megi skrifa á Byrjendalæsi, þá er mikilvægt að bregðast við. Ef þessi orð eiga sér ekki raunverulega stoð, ber að taka þau til baka.

Inga er ný í embætti og á vonandi eftir að kynna sér hvernig lestrar- og læsiskennslu er háttað í skólum landsins og hvernig embætti hennar getur stutt sem best við þá sem starfa í menntakerfinu og vinna af heilindum með börnum og ungmennum.

Grunnskólar á Íslandi starfa samkvæmt aðalnámskrá sem gefin er út af yfirvöldum menntamála og kveður á um markmið skólastarfs. Skólar hafa ákveðið frelsi til að velja leiðir til að ná þeim markmiðum sem þeim er ætlað.

Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri hefur í um 20 ár boðið skólum stuðning við eflingu starfshátta við kennslu læsis, meðal annars í starfsþróunarverkefninu Byrjendalæsi sem þróað var fyrir læsiskennslu í 1. og 2. bekk grunnskóla og hefur náð góðri fótfestu í mörgum skólum. Aðferðin myndar umgjörð um læsiskennslu sem tryggir að unnið sé með alla helstu undirþætti læsis, það er talað mál, hlustun, lestur og ritun samkvæmt gagnreyndum aðferðum. Í upphafi lestrarnáms er unnið markvisst með tengsl stafa og hljóða og hljóðaaðferð nýtt bæði á samtengjandi og sundurgreinandi hátt.

Skólar sem kenna eftir aðferðum Byrjendalæsis fylga hæfniviðmiðum aðalnámskrár líkt og aðrir skólar í landinu og leggja fyrir þau matstæki sem yfirvöld leggja skólum til. Það gefur tækifæri til að bera árangur nemenda í Byrjendalæsisskólum saman við meðalárangur nemenda á landinu.

Það hefur Rannveig Oddsdóttir gert og birtir niðurstöður í ritrýndri grein 11. nóvember 2025. Í greininni kemur m.a. fram að lestrarfærni barna í Byrjendalæsisskólum þróast á sambærilegan hátt og hjá nemendum á landsvísu á fyrstu tveimur árum grunnskólagöngu.

Byrjendalæsi virðist því skila svipuðum árangri fyrir lestrarfærni nemenda og aðrar aðferðir sem notaðar eru við lestrarkennslu í íslenskum skólum og aðferðin því ólíklega sá blóraböggull sem ráðherra barna-og menntamála heldur fram.

Auk þess að fylgjast með stöðu og framförum nemenda í Byrjendalæsisskólum í opinberum gögnum styðjast skólarnir við Gæðaviðmið sem Miðstöð skólaþróunar leggur til og nýtist skólunum við innra mat og þróun starfshátta.

Miðstöð skólaþróunar á í lifandi samstarfi við fræðafólk og starfandi kennara um allt land til að efla skilning og þekkingu á hvernig styðja má sem best við kennara og nemendur þegar kemur að læsi. Við vitum að breytingar í samfélagi okkar, meðal annars hvað varðar aukna fjölbreytni í tungumála- og menningarlegum bakgrunni er áskorun sem takast þarf á við í breiðu samstarfi.

Það er gott að tilheyra öflugu samfélagi Byrjendalæsiskennara, þar ríkir metnaður og vilji til samvinnu og góðra verka.

Miðstöð skólaþróunar er mjög stolt af samstarfsskólum sínum og kennurum sem leggja á hverjum degi metnað í starfið sitt og vita fyrir hvað þeir standa. Þeir vita að börnin eru okkar dýrmætasta eign og að þeim er treyst fyrir miklu. Við viljum styðja og efla í stað þess að tala niður. Við vitum að það er ekki hægt að finna einhlítar orsakir eða einfalda lausn á flóknum viðfangsefnum.

Hægt er að fræðast á ýmsan hátt um Byrjendalæsi ef áhugi er fyrir hendi. Ýmis skrif og rannsóknir má finna, auk þess sem facebook hópur Byrjendalæsis er virkur, opin vefsíða er aðgengileg og horfa má á kynningarmyndband sem tekið var upp þegar aðferðin var á upphafsárum sínum. Sjá á https://sites.google.com/view/byrjendalaes/fors%C3%AD%C3%B0a

Ráðherra er alltaf velkomin til Akureyrar og fá kynningu á starfi Miðstöðvar skólaþróunar.

Eins væri tilvalið fyrir ráðherra að fara í heimsókn í skóla til að sjá skútu sem er ekki strand á miðjum sjó, heldur metnaðarfulla kennara og áhugasama og kröftuga nemendur.

Höfundur er sérfræðingur á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri.




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×