Skoðun

Mýtuvaxtarverkin - inngangskúrs í loftslagsafneitun

Sveinn Atli Gunnarsson skrifar

Velkomin í Mýtuvaxtarverkin - inngangskúrs í loftslagsafneitun. Þessi kúrs er ekki fyrir hvaða smámenni sem er, heldur fyrir þá sem „vita allt” og eru tilbúnir að segja það upphátt, lengi, af mikilli sannfæringu og nánast engri umhugsun. Sjálfsöryggið á bak við orðin eru, að sjálfsögðu, helsta forsenda glæstra sigra í loftslagsumræðunni.

Nemendur þurfa helst að vera miðaldra (oftar karlar), með ríkulega reynslu af því að hafa „rétt fyrir sér”. Það er frábær byrjun, því sterkar skoðanir eru kjarninn í þessari fræðigrein. Það eina sem þarf að bæta við er heilbrigð fyrirlitning á gagnrýnni hugsun, og þá er meistaragráðan nánast í höfn.

Þú lærir fljótt að útrýma hugsunum sem gætu vakið óþægilegar spurningar. Ef eitthvað vekur hugboð um að heimurinn sé kannski ekki nákvæmlega eins og þú heldur, kæfðu það strax í fæðingu. Rétt eins og hitamet í fréttum sem þú skýrir með orðunum: „þetta kallaðist nú bara sumar hér áður fyrr“.

Þegar hugurinn hefur verið hreinsaður af efa getur þú farið að móta þinn eigin sannleiksheim. Internetið býður þar upp á óteljandi fjársjóði: hálfsannleika, útúrsnúninga og dásamlegar blekkingar, allt saumað að þínum eigin heimsmyndarkenningum. Þar finnurðu líka fólk sem hefur náð þeim áfanga að sjá sér farborða í að mata þig á þessum „sannindum”, en samt án þess að vera að staldra við einhver leiðindi eins og staðreyndir eða hvað þá samhengi hlutanna.

Mót­sagnir? Einfaldlega hunsaðu þær, líkt og væru það efasemdir um eigið ágæti. Og ef þú ert í vafa um trúverðugleikann skaltu vitna í einhvern öldung sem fékk Nóbelsverðlaun fyrir eitthvað allt annað en loftslagsvísindi. Það virkar alltaf. Fólk elskar svoleiðis, sérstaklega þegar ef það þjónar þeirra eigin persónulegu sannfæringu.

Hr. Gúggull mun svo sjá til þess að þú fáir fullkomlega sérsniðna heimsmynd, bara fyrir þig, sem algóritmarnir vinna ötullega í að mata þig með og finna eitthvað sem styður afneitunina þína 110%. Þetta er hin alsjálfvirka hughreinsun 21. aldar: engin leiðinleg rökvísi­ sem er að trufla friðinn.

Aldrei eyða tíma í vísindagreinar eða gagnrýni. Þú ert ekki hér til að skilja, heldur til að hrópa. Og þegar einhver reynir að útskýra eitthvað, þá byggir þú bara strámann og sendir hann beint í hausinn á viðmælandanum. Setningar á borð við „þið viljið bara hækka skatta!“ eða „hvenær átti heimsendirinn ykkar eiginlega að vera?“ gera alltaf sitt gagn.

Endurtaktu svo reglulega að loftslagsvísindi séu eitt stórt samsæri, sérhannað til að hækka skatta og hemja frelsi þitt. Augljóslega eru vísindamenn að reyna að græða persónulega á alþjóðlegu blekkingarplotti, og þú ert síðasta vígi skynseminnar. Því oftar sem þú segir sjáflum þér þetta, því sannara verður það, í þínum eigin huga að minnsta kosti, og það er jú þar sem sannleikurinn býr.

Til hamingju! Þú ert hér með vottaður sérfræðingur í loftslagsafneitun, vopnaður fullvissu, hávaða og bergmáli eigin sannfæringar. Þú stendur á toppi pýramídans og ef einhver reynir að rökræða eitthvað við þig, þá öskrar þú bara enn hærra ofan af þinni háu skör.

Fyrir áhugasama má nefna að nokkrir íslenskir broddborgarar hafa þegar lokið þessum námskeiði af mikilli prýði. Þeir skrifa bækur, blogg og pistla á samfélagsmiðlum sem eru sannkölluð meistaraverk í listinni að hafa rangt fyrir sér, og allt er það gert af miklu sjálfstrausti. Fyrrverandi alþingismaður, sem þykir þetta mikið hitamál, hefur m.a. skrifað heila bók þar sem hann sýnir svart á hvítu að hann hefur nú þegar gott vald á Mýtuvaxtarverkunum.

Gangi þér sem allra best í útbreiðslu blekkinga og falsvísinda. Ég hef fulla trú á þér!

---

Þessi grein er auðvitað meinhæðin og skrifuð í kjölfar margítrekaðra árekstra við afneitun loftslagsvísinda. Hún dregur upp mynd sem líkist kannski ekki neinum sérstökum einstaklingum, en er samt óþægilega oft eins og umræðuhefðin sjálf birtist sumum okkar í amstri dagsins.

Sjá fyrri grein höfundar um svipað efni, Mýtuvaxtarækt Loftslagsafneitunar

Höfundur er í loftslagshópnum París 1,5 sem berst fyrir því að Íslandi leggi sitt af mörkum til að leysa loftslagsvandann.




Skoðun

Sjá meira


×