Innlent

Ragnar Þór verður ráð­herra

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Ragnar Þór sest í ráðherrastól Ingu, sem sest í stól Guðmundar Inga, sem sagði af sér í kvöld.
Ragnar Þór sest í ráðherrastól Ingu, sem sest í stól Guðmundar Inga, sem sagði af sér í kvöld. Samsett mynd

Inga Sæland formaður Flokks fólksins tekur við af Guðmundi Inga Kristinssyni sem mennta- og barnamálaráðherra eftir afsögn Guðmundar. Þá verður Ragnar Þór Ingólfsson þingflokksformaður Flokks fólksins félags- og húsnæðismálaráðherra. 

Inga greinir frá þessu á Facebook. Guðmundur Ingi greindi frá því á sjöunda tímanum að hann segði af sér sem mennta- og barnamálaráðherra vegna veikinda. Guðmundur Ingi snýr aftur á Alþingi eftir að veikindaleyfi hans lýkur. 

„Minn góði vinur og baráttujaxl Guðmundur Ingi Kristinsson hefur nú sagt af sér embætti mennta- og barnamálaráðherra af heilsufarsástæðum. Hann gekkst undir stóra opna hjartaaðgerð seint í desember og þarf tíma til að jafna sig og ná fullum kröftum. Ég óska honum alls hins besta og hlakka til að fá hann aftur til þingstarfa þegar þar að kemur,“ segir Inga í færslunni.

Hún segist hafa ákveðið að taka við embætti mennta- og barnamálaráðherra.

„Flokkur fólksins var beinlínis stofnaður á sínum tíma til bæta kjör barna sem búa við fátækt. Fjölmargar áskoranir bíða úrlausna í ráðuneytinu hvað varðar grunnskólann, börn með fjölþættan vanda og svo framvegis. Þessi mál eru meðal helstu áherslumála ríkisstjórnarinnar.“

Þá greinir hún frá því að Ragnar Þór taki við af sér í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu. 

„Hann hefur meðal annars farið fyrir húsnæðishópi ríkisstjórnarinnar og býr yfir víðtækri reynslu og þekkingu á húsnæðis-, vinnumarkaðs- og félagsmálum,“ skrifar Inga. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×