Innlent

Enn þungt haldinn í Suður-Afríku en ein­hver bata­merki

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ómar, til vinstri, og Agnar, til hægri, standa fyrir söfnun fyrir Kjartan vin sinn sem liggur þungt haldinn á spítala í Suður-Afríku.
Ómar, til vinstri, og Agnar, til hægri, standa fyrir söfnun fyrir Kjartan vin sinn sem liggur þungt haldinn á spítala í Suður-Afríku. Samsett

Kjartan Guðmundsson er enn þungt haldinn á spítala í Suður-Afríku. Vinir hans segja hann sýna einhver merki um bata en hann sé enn tengdur bæði öndunarvél og í nýrnaskilun. Þeir hafa safnað rúmum þrettán milljónum fyrir Kjartan og segja söfnun enn opna. Safna þurfi meira svo hægt sé að veita Kjartani stuðning meðan á sjúkrahúsdvöl stendur en einnig í endurhæfingu og þegar hann kemst heim til Íslands.

Kjartan lenti í alvarlegu bílslysi þann 17. desember utan borgarinnar Mombela í Suður-Afríku. Dóttir hans og móðir létust í bílslysinu en þau voru í Suður-Afríku til að heimsækja son Kjartans, bróður stúlkunnar, sem er í vímuefnameðferð í Suður-Afríku.

Agnar Jónsson og Ómar Sigurðsson, vinir Kjartans, hrintu af stað söfnun í kjölfar slyssins. Þeir voru við viðtal í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Ómar segir hafa verið ákveðið að hefja söfnun þegar lá fyrir að það væri ófyrirsjáanlegur kostnaður við sjúkrahúsdvöl Kjartans í Suður-Afríku. Hann segir óvíst hversu löng endurhæfingin verður og hvar hann þurfi að vera í henni.

Ómar segir fólk úti hjá Kjartani til að aðstoða hann og þannig þurfi það að vera meðan á bata og endurhæfingu stendur. Fyrst hafi tveir vinir og bróðir hans farið út en núna séu vinirnir komnir heim og annar farinn út.

„Við erum aðallega að hugsa um að það sé einhver til staðar hjá Kjartani þegar hann vaknar. Að hann vakni ekki bara einn á spítala í einhverju landi með þessar skelfilegu fréttir sem á eftir að segja honum, sem hann veit ekki einu sinni af.“

Agnar segir stöðu Kjartans ekki góða, hann sé með innvortis blæðingar og það sé verið að bíða eftir því að hann verði nógu stöðugur til að koma honum í aðgerð á ósæð. Agnar segir að hann sé að reyna að vakna en um leið og blóðþrýstingur hækkar byrji innvortis blæðingar og núna sé verið að reyna að ná honum nógu góðum til að koma honum í aðgerð.

Lítil en góð skref

Hann sé í öndunarvél en það sé verið að reyna að minnka þrýstinginn til að hann geti tekið við.

„Þetta eru rosa lítil skref en það eru góðar fréttir að hann er að sýna merki,“ segir hann og að súrefnismettun sé að aukast og þannig sé hægt að minnka stuðning öndunarvélarinnar.

Kjartan er mikið slasaður og á langt bataferli fram undan. Aðsend

Ómar segir óvíst hvort að Kjartan muni ná sér. Það sé ekki hægt að mynda hann vegna allra vélanna sem hann er tengdur við.

Auk öndunarvélarinnar er hann í nýrnaskilun, fyrst allan sólarhringinn en núna í sjö klukkustundir á dag.

„Góðu fréttirnar eru að hann er á lífi. Hans bíður langt bataferli og þetta er allt mjög óljóst … það er von,“ segir Agnar.

Söfnun gangi bærilega

Ómar segir söfnunina ganga bærilega. Það sé búið að safna um 13 milljónum sem gefi bróður hans og þeim sem eru úti ákveðið öryggi og svigrúm til að veita Kjartani stuðning.

Ómar segir auk þess Kjartan sjálfstætt starfandi og því sé söfnunin einnig hugsuð til að gefa honum svigrúm ef og þegar hann kemur heim.

Agnar og Ómar segja ráðherra ríkisstjórnar ekki hafa sýnt málinu áhuga nema þegar kemur að flutningi dóttur Kjartans og móður hans heim. Það sé þó aðeins brotabrot af þeim kostnaði sem mun koma til vegna þessa slyss. Þeir segjast vona að ríkið stígi inn en sjái það ekki fyrir sér, úr þessu.

Þeir segja tryggingar dekka einhvern hluta kostnaðar en það sé óvíst hversu mikið, til dæmis hvort þær greiði fyrir endurhæfingu eða kostnað vegna sjúkrahúsdvalarinnar í Suður-Afríku.

Þeir Agnar og Ómar þekktust ekki fyrir slys Kjartans en segja marga koma að söfnun og stuðningi við Kjartan sem ekki þekktust áður en hafa þekkt Kjartan á ólíkum æviskeiðum þess.

„Við erum sameinuð í þessu, að styðja við bakið á honum. Eins og ein vinkona okkar sagði að einn af ofurkröftum Kjartans er að hann er rosalega góður vinur og góður pabbi,“ segir Agnar og að það hafi til dæmis sýnt sig þegar hann fann meðferðina fyrir drenginn sinn og fór með hann út. Þeir segja ferðina í desember líklega hafa verið hans þriðju ferð út og hann hafi því þekkt aðstæður að einhverju leyti.

Ómar viðurkennir að hafa „fussað og sveiað“ þegar Kjartan nefndi fyrst að hann ætlaði með drenginn sinn út því þetta sé svo langt í burtu. Það hafi sýnt sig í dag að meðferðin virki. Hann segir drenginn standa sig vel í meðferð og hann fái góðan stuðning í meðferðinni. Hann hafi viljað halda áfram meðferð eftir slysið.

Ómar og Agnar hafa gefið út að þeir sjái fyrir sér að stofna félag í kringum söfnunina. Markmið hennar sé að geta veitt Kjartani og aðstandendum stuðning meðan hann dvelur á sjúkrahúsi og er í endurhæfingu en einnig til að greiða fyrir lögfræðikostnað því nauðsyn sé að rannsaka slysið.

Þörf á að rannsaka slysið

Vegarkaflinn sem slysið varð á sé sérstaklega hættulegur og Ómar segir að frá 2017 hafi tugir látist í þessari beygju þar sem slysið varð.

Þeir segja skelfilegt að hugsa til þess að þegar Kjartan vaknar þurfi að segja honum þessar hræðilegu fréttir. Agnar segir þess vegna afar mikilvægt að einhver sé hjá honum öllum stundum.

„Við höfum verið að spila fyrir hann hljóðupptökur frá vinum og vandamönnum og hann bregst við, hann kreistir hendur og verður stöðugri,“ segir Agnar.

Upplýsingar um söfnun er hægt að finna hér á Facebook-síðu Ómars. 

Aðstandendur móður stúlkunnar hófu einnig söfnun fyrir hana stuttu eftir slysið. Kom fram í frétt fyrir áramót að samkvæmt aðstandendum þeirrar söfnunar er búið að safna fyrir útför stúlkunnar, meðferð drengsins og öðrum kostnaði sem fylgir vegna meðferðarinnar, eins og heimsóknum móðurinnar til hans þar til meðferðinni lýkur á næsta ári.


Tengdar fréttir

Systir og amma drengs í meðferð létust í Suður-Afríku

Íslendingarnir sem létust í umferðarslysi í Suður-Afríku í vikunni voru þar til að heimsækja íslenskan dreng í fíknimeðferð. Systir drengsins og föðuramma létust í slysinu, en faðir hans liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×