Innlent

Veki furðu að bíla­leigu­bílar séu ekki á nagladekkjum

Eiður Þór Árnason og Lovísa Arnardóttir skrifa
Teitur kom að bílveltunni í gærmorgun og segir það heppni að ekki hafi farið verr.
Teitur kom að bílveltunni í gærmorgun og segir það heppni að ekki hafi farið verr. Samsett

Teitur Þorkelsson leiðsögumaður kom að bílveltu í gær, nýársmorgun, við Kambana á Hellisheiði og furðar sig á því að bílaleigubílar séu ekki á nagladekkjum. Í bílnum voru ferðamenn sem voru fluttir til Hveragerðis til aðhlynningar og voru ekki alvarlega slasaðir að sögn Teits. Hann segir þau þó hafa verið í miklu áfalli.

Teitur kom að fjölskyldunni um klukkan 10.30 í gærmorgun en hann var sjálfur á leið að sækja ferðamenn sem hann var að fara með í ferð. Hann segir bíl fjölskyldunnar hafa runnið út af veginum og oltið. Hann hafi stöðvað og boðið þeim að koma inn í bíl til sín því það hafi verið svo kalt. Þar biðu þau eftir viðbragðsaðilum sem komu á vettvang stuttu síðar.

„Þau voru smá lemstruð,“ segir hann og að oft komi áverkar betur í ljós síðar.

Hann segir að á þessum tíma hafi verið glerhálka á heiðinni. „Maður sá kristalla á veginum. Þau hafa niður kambana og runnið út af,“ segir Teitur og að á meðan hann aðstoðaði fjölskylduna hafi nokkrir bílar runnið til sem voru á niðurleið í Kömbunum.

„Ég var hræddur um að þau myndu renna á okkur. Þetta er oft svona á morgnana og á kvöldin, þá hitabreytingum verður skyndilega glerhált,“ segir Teitur.

Pétur segir nokkra bíla hafa runnið til og hann hafi óttast að þeir myndu renna á þau.Aðsend

Skiptar skoðanir á nagladekkjum

Hann segir þetta auðvitað hluta af íslenska vetrinum. Hann vinni sjálfur við það að aka allan ársins hring og sé alvanur.

„Það eru skiptar skoðanir á nagladekkjum en ég hélt að allir bílaleigubílar væru á nagladekkjum á veturna,“ segir Pétur og að reynslan hafi kennt honum að það skipti máli.

Það skipti samt miklu máli að aka varlega en það hjálpi klárlega að vera á nagladrekkjum.

Hann segir það ekki óalgenga sjón að sjá bíla sem hafa verið stöðvaðir utan vegar um vetur en það sé heldur alvarlegra þegar þeir eru farnir að velta. Þá geti gler farið að brotna og fólk slasast alvarlega.

„En þetta fór betur en á horfðist,“ segir Teitur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×