Skoðun

Þegar högg­bylgjan skellur á

Gísli Rafn Ólafsson skrifar

Á árinu sem er að líða hafa orð löðrandi af hroka og hleypidómum flætt af slíku offorsi um samfélagsmiðla að úr hefur orðið einhvers konar höggbylgja mannvonsku. Það er að minnsta kosti sú tilfinning sem mörg sitja eftir með – ekki síst þau sem orðin beinast gegn: Fólk af ákveðnum uppruna. Fólk með ákveðna kynvitund. Fólk sem aðhyllist ákveðin trúarbrögð. Fólk með ákveðna kynhneigð. Fólk frá ákveðnum heimshlutum.

Saman við þessa tegund orða bætast svo önnur sem virðast hafa þann eina tilgang að rugla fólk í ríminu. Sá efasemdafræjum. Ala á sundrungu. Enn meiri fordómum. Staðreyndir eru rengdar. Villandi upplýsingum hampað með lækum og deilingum. Eftir stendur fólk ringlað og margt hvert þreytt á að horfa upp á það sem virðist vera endalausar deilur, átök og rifrildi. Átök í raunheimum. Og átök í netheimum. Átakanlegt átakaár.

Það er komið að því að segja stopp. Að staldra við. Bregða „afsakið hlé“-merkinu gamla góða upp á skjái snjalltækjanna. Og bæta við upphrópunarmerki. Afsakið – tökum hlé!

Hér og nú skulum við taka örstutt hlé. Því ég ætla að segja þér frá hlutum sem hafa verið að eiga sér stað á þessu ári sem eru svo rosalegir, svo geggjaðir, að þú átt eftir standa á öndinni.

3.063. Það er fjöldi fólks sem sinnt hefur sjálfboðaliðastörfum á vegum Rauða krossins, fyrir fólkið í landinu árið 2025. Með barmafullt hjartað af manngæsku hefur það rétt öðrum sem á þurfa að halda hjálparhönd. Til dæmis þeim sem eru einmana og þurfa einhvern að tala við. Sem og þeim sem þjást af kvíða og mikilli vanlíðan. Líka þeim sem lenda í áföllum eða verða vitni að slysum og þurfa sálrænan stuðning. Einnig þeim sem eru nýkomnir til landsins og vilja læra íslensku og fræðast um íslenskt samfélag. Og ekki má gleyma þeim sem sækja skaðaminnkandi þjónustu. Eða þeim sem eru í fangelsum eða að stíga sín fyrstu skref út í samfélagið eftir afplánun.

565. Það er fjöldi nýrra sjálfboðaliða sem hóf störf hjá Rauða krossinum árið 2025. En þá erum við bara að tala um mennska sjálfboðaliða! 45 nýir ferfætlingar bættust í hundavinaverkefnið okkar. Það gera 180 fleiri mjúkar loppur í það vinsæla og gefandi verkefni!

Og ein tala í viðbót:

53.583. Eða þar um bil. Það er sá fjöldi fólks sem við höfum haft beina snertingu við í gegnum verkefni okkar og námskeið á árinu 2025.

Þetta vissir þú ekki, er það? Hversu margir gefa af sér án þess að ætlast til nokkurs í staðinn. Hversu margir velja að hugsa um aðra og hjálpa ókunnugum. Hversu margir leggja mikið á sig til að stuðla að friði og farsæld.

Við hjá Rauða krossinum viljum halda áfram að vera til staðar fyrir öll sem á þurfa að halda. Við viljum líka vera virkur þátttakandi í því að bæta samfélagið okkar svo sem flestum megi líða sem best. Við viljum koma að því að róa öldurnar. Stilla til friðar.

Því ófriður má ekki verða hinn nýi veruleiki okkar.

Mannúðin verður að sigra.

Og við hvetjum þig til að vera með henni í liði.

Höfundur er framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×