Íslenski boltinn

Meira en 37 stöðu­gildi hjá Knatt­spyrnu­sam­bandi Ís­lands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það vantar ekki starfsfólkið hjá langstærsta sérsambandinu í íslenskum íþróttum. Myndin tengist fréttinni ekki beint en hún er tekin fyrir landsleik hjá Íslandi.
Það vantar ekki starfsfólkið hjá langstærsta sérsambandinu í íslenskum íþróttum. Myndin tengist fréttinni ekki beint en hún er tekin fyrir landsleik hjá Íslandi. Getty/Alex Nicodim

Knattspyrnusamband Íslands taldi ástæðu fyrir því að útskýra betur starfsmannahald sambandsins í frétt á heimasíðu þess. Þar kemur í ljós að Ísland er nálægt botninum þegar kemur að evrópsku knattspyrnusamböndunum.

„Reglulega kviknar umræða innan knattspyrnuhreyfingarinnar um umfang starfsemi KSÍ og þá helst um verkefni skrifstofu og fjölda starfsfólks,“ byrjar fréttin hjá KSÍ.

„Vegna þessa vill KSÍ vekja athygli á því að í mannauðsrannsókn sem UEFA framkvæmdi árið 2024 (UEFA Human Resources Benchmarking Report) kom m.a. fram að KSÍ væri í 53. sæti af öllum 55 knattspyrnusamböndum innan UEFA þegar talinn væri fjöldi starfsfólks – sem sagt, knattspyrnusambönd aðeins tveggja aðildarlanda UEFA eru með færri starfsmenn en KSÍ,“ segir í fréttinni.

Fréttaskrifari útskýrir frekar starfsmannaveltu Knattspyrnusambands Íslands en á skrifstofu sambandsins og Laugardalsvelli eru í desember 2025 alls 37,8 stöðugildi.

„Á skrifstofunni, að meðtöldum formanni KSÍ og landsliðsþjálfurum, eru 31,8 föst stöðugildi (þar af hafa landsliðsþjálfarar 9,6 stöðugildi).

Þessu til viðbótar eru fjögur stöðugildi sem eru fjármögnuð með styrkjum frá UEFA og FIFA - eitt tímabundið stöðugildi í innleiðingu á nýju mótakerfi (styrkur meðan á innleiðingu stendur) og þrjú stöðugildi í sérverkefni á knattspyrnusviði (styrkur meðan verkefni er í gangi). Styrkir í þessum tilfellum eru eyrnamerktir einmitt þessum tilteknu verkefnum/stöðugildum og fengjust ekki ef þessi verkefni væri ekki í gangi,“ segir í fréttinni.

Það kemur einnig fram að það eru tvö stöðugildi á Laugardalsvelli sem sjá um viðhald vallarins sem og mannvirkisins í samstarfi við Reykjavíkurborg á grundvelli þjónustu- og rekstrarsamnings milli aðila.

Þetta gera alls 37,8 stöðugildi en það er tekið sérstaklega fram að sex þeirra eru ekki fjármögnuð af Knattspyrnusambandi Íslands.

Fréttaskrifari bætir einnig við samanburði við frændur okkar Færeyinga.

„Til fróðleiks og samanburðar má nefna að starfsmenn færeyska knattspyrnusambandsins nú í desember 2025 eru 35 alls, að meðtöldum landsliðsþjálfurum, og þar af tvö stöðugildi sem bera ábyrgð á umsjón og viðhaldi skrifstofuaðstöðu. Til viðbótar þessum 35 stöðugildum eru fjórir starfsmenn sveitarfélagsins í Þórshöfn sem bera ábyrgð á viðhaldi þjóðarleikvangsins í Færeyjum og sinna honum samhliða fjórum öðrum leikvöngum sem sveitarfélagið rekur,“ segir í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×